Færsluflokkur: Bloggar

Hræðsluáróðurinn byrjar um leið.

Væri nú ekki betra hjá þessu fólki að reyna heldur að leiðrétta þann misskilning sem uppi hefur verið allan tímann að Íslendingum beri lagaleg skilda til að borga þetta. Helstu rök forsetans voru þau að þetta yrði til að ná samstöðu milli allra um þetta mál. En Steingrímur og Jóhanna setja drifmótor hræðslubandalagsins í gang um leið og byrja að draga fram allar þær verstu myndir sem til eru.

Hvers vegna í ósköpunum treysta þau ekki þjóðinni til að ákveða hvað er henni fyrir bestu. Ég fyrir mitt leyti treysti þjóðinni mun betur en Svavari Gestssyni og hans liði til að ákveða framhald þessa máls.

Þetta mál verður að leysast í sátt þjóðarinnar og ráðamanna hennar. Pólitískt baktjaldamakk Samfylkingarinnar og VG og hugmyndasérfræðinga þeirra á ekki við í þessu máli. Því var meira að segja forsetinn sammála.

Þjóðin ræður........


mbl.is Endurreisnaráætlun í uppnám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húrra fyrir pylsugerðarmanninum.

Þessu átti ég ekki von á. En það er gott að hann ákvað að hlusta á fólkið í landinu, en ekki þá sem horfa bara til Brussel. Hann vann sér inn nokkur prik hjá þjóðinni í dag.

Ekki veitti honum af.

Skrifar ekki undir Icesave......


mbl.is Staðfestir ekki Icesave-lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Amma Gunna.

Í dag er amma mín hún Kristín Guðrún Sveinbjörnsdóttir frá Uppsölum í Seyðisfirði 90 ára. Eins og ég hef áður skrifað um hér þá er ég mikill ömmustákur og hef alltaf verið. Nú í morgun hef ég hugsað hversu mikið það hefur gefið mér að eiga ömmu að í gegnum árin. Þessi hægláta og glaða kona sem ekkert aumt má sjá, nægjusöm og sívinnandi allt sitt líf.

Þó að amma sé enn hjá okkur er hún að sumu leyti farin. Hugur hennar er komin þar sem sálin fer á endanum. Það er erfitt að heimsækja ömmu þegar hún þekkir mann ekki lengur, en allar góðu minningarnar um hana gleðja mann og stundum er eins og rofi aðeins til og hún á betri daga. Um daginn kom stórfjölskyldan saman í kaffi. Þar var Benni frændi minn með nikkuna og spilaði Best eru berin, en það er lag sem mikið er sungið í fjölskyldunni. Amma samdi textann við þetta lag og það var gaman að sjá hana lifna alla við að heyra lagið og taka undir.

Amma er trúuð kona og þó að við þökkum fyrir hvern dag sem við höfum hana hjá okkur þá vitum við að sá sem öllu ræður fer að kalla hana til sín. Ég veit að amma er sátt við það.

Amma dvelur nú á sjúkraskýlinu í Bolungarvík í skjóli fjölskyldu og frábærs starfsfólk sem hugsar um hana.

90 ára sómakona.....


Hvort velur hann þjóðina eða ríkisstjórnina

Honum er vandi á höndum forsetanum. Sá sem á stærsta þáttinn í að koma vinstri flokkunum til valda gæti líka orðið sá sem losar okkur við þau. Það vita allir sem vilja vita að hann gerði allt sem hann gat eftir að ríkisstjórn Geirs Haarde fór frá að koma Samfylkingu og VG saman. Nú verður hann að velja á milli þjóðarinnar annarsvegar og skilgetins afkvæmis  síns hins vegar.

Öllu jöfnu ætti það að vera létt verk en fyrri yfirlýsingar Ólafs koma honum nú í vanda. Hann sagði í haust að hann samþykkti þáverandi Icesave lög vegna þess að fyrirvarar komu frá þinginu. Nú hafa hugleysingjarnir sem eru í meirihluta Alþingis fellt þá fyrirvara út. Ólafur hefur nú blaðað í þessu í fimm daga og ekki komist að niðurstöðu ennþá. Hann er ekki sá vinsælasti hjá þjóðinni þessa dagana en gæti lappað upp á álitið ef hann hlustaði á þjóð sína. En ég er ekki viss um að hann muni gera það.

Ólafur Ragnar er fyrst og fremst pólitískur refur og verður aldrei annað í mínum huga. Hann er ekki það sameiningartákn sem þjóðin þarf á að halda nú í raunum sínum. Þess vegna efast ég um að hann synji lögunum, en lifi þó í voninni að hann geri það.

Það er farsælast fyrir þjóðhöfðingja að hlusta á þjóð sína.

Nei við Icesave......


mbl.is Hitti Jóhönnu og Steingrím
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

33 pólitískir loddarar

Þá vitum við hvert innihaldið var hjá Samfylkingu og VG fyrir síðustu kosningar þegar lýðræðisástin vall út úr stefnuskrám þeirra. Innihaldið var nákvæmlega ekki neitt. Það er sérstaklega áhugavert að sjá sum nöfnin sem nú skyndilega treysta ekki þjóðinni til að taka ákvörðun um þetta risastóra mál.

Steingrímur Joð, Jóhanna Sigurðar, Svandís Svavarsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir að við tölum nú ekki um kjánann hann Þráinn Bertelsson sem aðeins komst á þing út á lýðræðissinna eru meðal þeirra 33  pólitísku loddara sem þegar allt kom til alls höfðu ekki dug til að standa á sínu.

Þetta er það sem þjóðin skal muna, nefnilega hverjir það voru sem treystu ekki þjóðinni til að ákveða örlög sín.

Virkt lýðræði.....


mbl.is Felldu tillögu um þjóðaratkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað ætla stjórnarþingmenn að samþykkja.

Þeir þingmenn sem sagt hafa opinberlega að þeir hyggist samþykkja þetta mál hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að samþykkja. Atburðir dagsins sanna svo ekki verður um villst að það er langt frá því búið að leggja fram öll gögn í málinu. Ef Össur er að segja satt, sem ég ætla ekki að draga í efa þá er um stórkostlegan trúnaðarbrest innan ríkisstjórnarinnar að ræða. Helsti bardagamaður Steingríms Joð heldur leyndum mikilvægum gögnum fyrir utanríkisráðherra.

Hvað skildi það nú þýða þegar talað er um  traust í samstarfi, tölum nú ekki um ef samstarfið gengi út á annað en að halda lífi í handónýtri ríkisstjórn. Ríkisstjórn sem hefur það eitt sér til frægðar unnið að vera afkvæmi þess að vinstri menn náðu saman í fyrsta skipti í sögunni.

Eru þetta vinnubrögð sem fólk á Íslandi ætlar að láta bjóða sér uppá. Það að ætla að samþykkja þessar drápsbyrðar á íslensku þjóðina án þess að hafa öll gögn í hendi er gríðarlegt ábyrgðarmál.

Þingmönnum sem eru kosnir til að vinna fyrir fólkið í landinu ber skilda til að kynna sér málin ofan í kjölinn. Það hafa stjórnarþingmenn ekki gert í þessu máli, og maður spyr sig hvað það er sem rekur þá til að berja þennan óskapnað í gegn um þingið.

Trúnaðarbrestur á stjórnarheimilinu.....


mbl.is Icesave-umræðu frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bölvað kjaftæði.

gosiÞað verður að segjast eins og er að það trúir varla nokkur maður því að Steingrímur Joð hafi ekki vitað um þessa skipan í stjórn bankanns. Samfylkingin setur þarna aðalhöfund efnahagsstefnu flokksins í verðugt embætti. Fólk ætti að gera sér grein fyrir hans hlut í Icesave ferlinu og því sem á eftir fylgdi. Set svo hér inn staksteina dagsins þar sem sést hversu öruggt er að trúa Steingrími.

Lítil stoð í Steingrími.

Björn Bjarnason hefur birt merkilegt yfirlit yfir framgang Icesave-málsins. Það er ótrúleg lesning. Framganga forráðamanna þess er lyginni líkust.

Tökum dæmi af Steingrími J. Hann sagði í mars á þessu ári: »Ég treysti Svavari Gestssyni. Ég veit að hann er að gera góða hluti og ég lofa þér því að það er í sjónmáli að hann landi, og hans fólk glæsilegri niðurstöðu fyrir okkur.«

Steingrímur »veit« og hann »lofar því«.

Hinn 3. júní spyr formaður Framsóknarflokks, Sigmundur Davíð, Steingrím J. Sigfússon í þinginu um stöðu málsins. Steingrímur svarar:

»Ég held ég geti fullvissað hv. þingmann að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi í dag eða einhverja næstu daga og áður en til þess kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd.«

Daginn eftir lá fyrir samningur, gerður án samráðs við utanríkismálanefnd.

Er að undra að málið komi á afturfótunum fyrir þing og þjóð? Steingrímur »veit«, hann »lofar«, hann »fullvissar« um að eitthvað verði »að sjálfsögðu« gert. Og ekkert stenst.

Steinrímur J. Sigfússon getur sagt eins og karlinn: »Ég viðurkenni að ég hef ekki alltaf rétt fyrir mér en á móti kemur að mér hefur aldrei skjátlast.«

Ekki orð að marka þennan mann......


mbl.is Steingrímur furðar sig á skipan í bankastjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólakveðja

Jólakveðja til allra sem leggja leið sína hingað inn. Vonandi að jólin verði ykkur gleðileg í faðmi vina og vandamanna. Látum jólaljósin lýsa okkur inn í framtíðina, og tökum fagnandi á móti nýju ári með öllu sem það hefur upp á að bjóða.

Jólakveðja frá Suðureyri.

Gleðileg jól......

gj


Jólagjöfin er samstaða

Hér er leiðari sem ég skrifaði í jólablað Vesturlands, blaðs sjálfstæðismanna á Vestfjörðum.

Nú þegar jólin eru á næsta leyti eru stór mál sem brjótast um í hugum fólks á Íslandi. Margir standa frammi fyrir vandamálum sem engin vill komast í. Það gerist þrátt fyrir fögur fyrirheit fyrstu hreinu vinstri ríkisstjórnar lýðveldissögunnar. Hver kannast ekki við frasa eins og skjaldborg um heimilin, efling atvinnulífs og að standa vörð um velferðakerfið. Nú ellefu mánuðum eftir að ríkisstjórnin fékk umboð til að taka á vandanum hefur fátt gerst.

 Á meðan Bretar og Hollendingar ganga freklega á rétt okkar Íslendinga með þvingunum og kúgunum sem munu skuldbinda þjóðina í áratugi, kemst fátt á dagskrá hjá ríkisstjórninni annað en að láta pólitískt rómantíska drauma rætast. 

Samfylkingin sem siglir merkilega lygnan sjó þrátt fyrir mikla ábyrgð á hruni bankanna, hefur það eitt á sinni stefnuskrá að koma landinu í Evrópusambandið sama hvað það kostar. Það á að setja stóra peninga í að sækja um aðild þrátt fyrir þá staðreynd að mikill meirihluti þjóðarinnar vill ekki ganga í Evrópusambandið. Flest bendir reyndar til að þjóðin hafni aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu með miklum meirihluta. 

Vinstri grænir hinsvegar reyna eins og þeir framast geta að bregða fæti fyrir flestar þær framkvæmdir sem gætu orðið til að auka atvinnu, sérstaklega á suðvestur horninu þar sem atvinnuleysi er mest. Þar skiptir engu margra ára undirbúningsvinna sveitarstjórna og annarra heima í héraði. 

Ríkisstjórnin skilur einnig eftir fjölda spurninga innan sjávarútvegsins sem ekki fást svör við. Það eru einkennileg vinnubrögð þegar vitað er að sú grein er okkar helsta von út úr vandanum fái hún að vera í friði. Mikil óvissa hefur myndast innan greinarinnar vegna illa undirbúinna hugmynda að nýju kvótakerfi. 

En þrátt fyrir úrræðaleysi stjórnvalda má fólk ekki missa trúna á að við komumst út úr vandanum. Það mun gerast með samvinnu og samstöðu fólks úr öllum stéttum samfélagsins.

Íslendingar hafa áður staðið frammi fyrir vandamálum og tekist á við þau án þess að bugast.  Látum ekki dökk ský draga úr hátíðleika jólanna. Gefum okkur samstöðu í jólagjöf. 

Það er von mín að allir vestfirðingar eigi gleðileg jól og gæfuríkt komandi ár í vændum. 

Ingólfur Þorleifsson

Formaður stjórnar fulltrúaráðs

Sjálfstæðisfélaganna í Ísafjarðarbæ.  

Jólapólitík......            

 


Hvítþveginn en drullugur upp fyrir haus.

Í Þessari yfirlýsingu má m.a. lesa eftirfarandi.

 „Sjálfstæðisflokkurinn heldur að lesandanum þeirri tálsýn að óbreyttar skattareglur og áður fyrirhugaðar breytingar sé eitthvað sem raunhæft sé eftir að hann sigldi þjóðarbúinu í þrot og braut niður tekjuöflun ríkisins. Raunhæfur samanburður verður aðeins gerður á raunverulegum forsendum,"

Undir þetta ritar Björgvin G Sigurðsson sem stýrði bankakerfinu í þrot sem viðskiptaráðherra. Hann var æðsti yfirmaður bankanna sem bankamálaráðherra 85% af þeim tíma sem Icesave reikningarnir voru til. Hann gerði aldrei athugasemd við þá reikninga fyrr en allt var hrunið. Hann toppaði svo allt þegar hann laug að þjóðinni að hann hefði aldrei haft hugmynd um neitt misjafnt allan þann tíma sem hann var ráðherra. Hann heldur vafalaust að allt sé gleymt vegna þess að hann hrökklaðist úr embætti korteri fyrir stjórnarslit. Svo er hins vegar ekki.

Það kemur því úr hörðustu átt hjá þingmanninum að tala um að einhver annar hafi siglt þjóðarbúinu í þrot, sérstaklega vegna þess að hann var sjálfur stýrimaðurinn, með bundið fyrir augu og eyru.

Það er kominn tími til að fólk átti sig á hlut Samfylkingarinnar í hruninu. Hún hefur að mestu leyti siglt lygnan sjó eftir hrun en svo mun það ekki verða endalaust.

Engillinn Björgvin G.......

 


mbl.is Gagnrýna Sjálfstæðismenn fyrir vafasama framsetningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband