Sannleikanum verður hver sárreiðastur

Í Kastljósi í síðustu viku mátti sjá Steingrím Joð í litlu jólaskapi þegar hann jós úr skálum reiði sinnar í garð forseta ASÍ. Hann kallaði Gylfa lygara og sagði hann ekki kunna mannasiði m.a. Öll þessi uppákoma var til komin vegna þess að ASÍ hafði birt heilsíðu auglýsingu í fréttablaðinu þar sem tíundaðar voru vanefndir ríkisstjórnarinnar er vörðuðu kjarasamninga sem gerðir voru vorið 2011.

 Síðan þetta var hafa ritsóðar ríkisstjórnarinnar og varðhundar keppst við að bera þessar ásakanir til baka með öllum ráðum. Oftar en ekki er farið í manninn á bak við forseta ASÍ en ekki samtökin sem hann stýrir. Talað er um að Gylfi hafi verið gerður afturreka með þessar fullyrðingar og þar fram eftir götunum. Steingrímur Joð beitti öllum sínum brögðum í kjaftbrúki eftir 30 ára þingsetu, og ekki nema von að Gylfa hafi gengið illa að koma sínum sjónarmiðum fram. Steingrímur má nefnilega eiga það að hann er bestur í að kjafta um hlutina, jafnvel þó aðrir viti mun meira um þá.

Núna hefur ASÍ hins vegar svarað og rökstutt auglýsinguna á heimasíðu sinni og þar getur fólk lesið lið fyrir lið hvernig ríkisstjórnin hefur svikið yfirlýsingar sínar í öllum liðum samkomulagsins. Það er því ljóst að ríkisstjórnin hefur ekki staðið við sitt í þessum samningum, jafnvel þó að hún reyni að hagræða sannleikanum í átt að settu marki. 

Skal því engan undra að forysta ASÍ hafi gefist upp á að vinna með ríkisstjórn sem ekki er hægt að treysta  fyrir horn. Í samningum á milli þessara aðila þarf traust og trúverðugleika til að útkoman verði góð. 

Orð skulu standa ! 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já svo sannarlega verður hver sannleikanum sárreiðastur ef rekið er ofan í mann ósóminn eins og í þessu tilfelli ríkisstjórnarinnar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.12.2012 kl. 12:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband