5.1.2008 | 15:43
Amma.
Hún Gunna amma mín er 88 ára í dag fædd 5-1 1920. Ég er ömmustrákur og verð það alltaf. það er alveg öruggt að ég fór út á Bakka til ömmu og afa á hverjum degi frá því að ég hafði aldur til og þar til ég flutti frá Bolungarvík. Þær eru ógleymanlegar stundirnar sem ég hef átt í eldhúsinu hjá ömmu. Oftast var ég kominn snemma á morgnana um helgar eftir að ég flutti og þá sat afi og hnýtti á króka eða las blöðin. Amma sat og prjónaði eða heklaði, þeim féll aldrei verk úr hendi, enda bæði alin upp við vinnusemi.
Alltaf var eitthvað gott í ofninum á sunnudagsmorgnum og oftar en ekki sat maður svo lengi að maður náði steikinni. Það var oftar en ekki settur diskur í spilarann og hlustað á harmonikkutónlist eða Álftagerðisbræður. Amma hefur alltaf haft dálæti á harmonikkutónlist frá því að hún var barn. Þau höfðu líka gaman af að dansa gömludansana og það var gaman að sjá þau taka sporið saman því þau voru mjög flink að dansa.
Afi lést 2001 og þá missti amma mikið, þau höfðu verið saman í næstum sextíu ár. Amma hélt áfram að búa á Bökkunum næstu árin, en nú býr amma á sjúkraskýlinu í Bolungarvík þar sem stjanað er við hana í einu og öllu eins og hún á svo sannarlega skilið. Þar hefur hún sér herbergi með Ísskáp og kaffikönnu og þegar ég kem í heimsókn þá er strax farið að setja í könnuna og týna fram kökur og sælgæti. hún hefur ekkert breyst að því leytinu þó hún eldist.
Elsku amma til hamingju með daginn.
Amma er einstök.....
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.