Vinstri flokkarnir lofa að reka sjávarútveginn í gjaldþrot.

KOSNINGABARÁTTA sú sem nú stendur yfir hefur illu heilli hvorki snúist
um menn né málefni. Engin gaumur er nú gefinn að þeirri staðreynd að vinstriflokkarnir hyggjast nú hrinda öllum þeim málum, sem þjóðin hefur ítrekað hafnað í framkvæmd. Þannig fá Vinstri grænir og Samfylkingin fullkominn frið til að boða að atvinnuuppbygging í tengslum við orkufrekan iðnað skuli stöðvuð, lagður skuli auka tekjuskattur á launþega, laun skuli lækkuð, lagður skuli á sérstakur eignaskattur sem helst bitnar á eldri borgurum og áfram mætti telja. Ekki einu sinni kosningaloforð þessara flokka um að setja þær atvinnugreinar sem enn standa styrkum stoðum á hausinn fá gagnrýna umfjöllun fjölmiðlanna.

 

Landsbyggðin lifir

á veiðum og vinnslu

 

Sú staðreynd kann að koma vinstriflokkunum á óvart að í sjávarbyggðum landsins býr enn drjúgur hluti þjóðarinnar. Íbúar í heimabyggðum höfunda þessarar greinar, Vestfjörðum, Vestmannaeyjum og Snæfellsnesi, eru um 5% þjóðarinnar. Með elju, útsjónarsemi og óþrjótandi trú á sjávarútveginn hefur íbúum þessara svæða tekist að eignast um 30% af aflaheimildum Íslendinga. Megnið af þessum verðmætum hafa fyrirtæki og einstaklingar á þessum atvinnusvæðum keypt, því andstætt því sem vinstrimenn halda fram hafa á milli 80 og 90% af aflaheimildum skipt um eigendur frá því að aflamarkskerfinu var komið á. Að gefnu tilefni og með tilliti til orðræðu vinstri flokkanna skal það tekið fram að enginn af höfundum þessarar greinar á gramm af kvóta né hefur átt slík verðmæti. Allir búum við hinsvegar í bæjum þar sem allt stendur og fellur með sjávarútvegi og hagsmunir okkar, sjómanna, fiskverkafólks og útgerðarmanna fara því saman. Íbúar þessara svæða hafa frá því að byggð hófst haft metnað fyrir sjávarútvegi og lifað á veiðum og vinnslu. Jafnvel þegar útrásin stóð sem hæst blinduðust þeir ekki af skjótfengnum gróða bankanna heldur héldu sínu striki. Á þeim tíma fengum við í sjávarbyggðum nokkuð góðan frið fyrir löngum ríkisvæðingarfingrum Samfylkingarinnar enda voru fingurnir þá notaðir til að klappa fyrir Baugi sem styrkti þá jú um þriðjung hverrar krónu sem kom í kassa þeirra. Sjávarútvegurinn var ekkert annað en slorvinna sem við á landsbyggðinni gátum dundað okkur við á meðan elíta Samfylkingarinnar var að sinna alvöru atvinnugreinum á borð við listsköpun, bókaskrifum, og vinnu á fjölmiðlunum.

 

Á að taka aflaheimildirnar

af afkomendunum?

Haddi

 

Nú horfir öðruvísi við. Á ný hefur höfuðborgarelíta Samfylkingarinnar með varaformanninn og fyrrverandi borgarstjóra í broddi fylkingar áttað sig á að íslenskt hagkerfi stendur og fellur með sjávarútvegi. Þar hefur hin raunverulega verðmætasköpun átt sér stað og enn eru þar verðmæti. Í landsfundarályktun Samfylkingarinnar segir »Allar aflaheimildir í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi verða innkallaðar eins fljótt og auðið er«. Þetta merkir að loforð Samfylkingarinnar er að taka aflaheimildirnar af íbúum sjávarbyggðanna og deila þeim út á »sanngjarnari máta«. Getur verið að íbúar þessara byggða vilji stuðla að því að kosningaloforð þetta nái fram að ganga?

 

Feigðarleiðin

 

Stjórnendur og starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækja hafa lýst yfir miklum áhyggjum af kosningarloforði Samfylkingarinnar því þrátt fyrir að ganga fram undir merkjum vinnu og velferðar lofa þeir íbúum sjávarbyggða gjaldþroti og atvinnuleysi. Vönduð úttekt Deloitte á fyrningarleiðinni sýndi að það tekur stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtæki landsins einungis sex ár með fimm prósenta fyrningu að fara á hausinn. Leiðina mætti því allt eins kalla feigðarleiðina. Verði hraðar farið tekur það skemmri tíma. Slíkt hefði í för með sér hörmungar fyrir sjávarbyggðirnar því er hægt að lofa. Með loforð sem þetta í handraðanum þarf ekki að undrast að vinstri flokkarnir vilji ekki ræða málefni. Staðreyndin er sú að þegar horft er bak við sykurhúðun vinstriflokka á »sanngjarnri« fyrningarleið blasir eftirfarandi við:
kristinn-mynd

 

Fyrningarleiðin er í eðli sínu þjóðnýting. Aflahlutdeildir sem útgerðin hefur keypt verða gerðar upptækar og boðnar upp á almennum markaði.

 

Fyrningarleiðin vegur að rótum sjávarútvegsins; eykur óstöðugleika, kemur í veg fyrir markmiðssetningu og langtímahugsun og stórskaðar afkomumöguleika fyrirtækjanna.

 

Fyrningarleið leiðir til óhagkvæmni og sóunar. Fyrirtækin geta ekki gert langtímaáætlanir vegna óvissu um aflaheimildir og verð þeirra.

 

Fyrningarleiðin kemur til með að valda fjöldagjaldþroti sjávarútvegsfyrirtækja og annarra fyrirtækja í sjávarbyggðum.


>> Úttekt Deloitte á fyrningarleiðinni sýndi að það tekur öflug sjávarútvegsfyrirtæki einungis sex ár með fimm prósenta fyrningu að fara á hausinn.
Halldór Halldórsson er bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Elliði  Vignisson í Vestmannaeyjum og Kristinn Jónasson í Snæfellsbæ.

 
Fórnum ekki undirstöðu atvinnuveginum......

mbl.is Þarf að vinna litla sigra á hverjum degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Guðjónsson

Að menn skulu ekki skammast sín fyrir slíkan hræðsluáróður sem þennan. Sem betur fer nennir almenningur ekki að lesa þvælu sem þessa öllu lengur. Flokkurinn ykkar er búinn að koma okkur í þrot og við þurfum alvöru stjórnmálamenn til að koma okkur á flot aftur, þá er ekki að finna hjá Sjálfstæðisflokknum. Loksins loksins hyllir í að við fáum alvöru stjórn sem tekur almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni.

Bestu kveðjur

Magnús

Magnús Guðjónsson, 18.4.2009 kl. 12:42

2 identicon

sumir þarna nafntogaðir hagsmunagæslumenn kvótans,enda meðal hörðustu sjálfstæðismanna í sinni heimabyggð svo lítið gef ég fyrir svona hræðsluáróður..

zappa (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 12:46

3 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Þið getið kallað þetta áróður, en þetta er samt það sem gerast mun ef fyrningaleiðin verður farin. Þetta hefur verið reiknað út af m.a. Deloitte og mörgum fleiri. Hvers vegna segja vinstri menn að þeir sem eru í útgerð nú kunni ekki að gera út. Hvað fæst með því að innkalla kvótann og leyfa misvel til þess föllnum stjórnmálamönnum að ákveða hver fær að róa.

Tími sjóðasukksins er liðinn.

Ingólfur H Þorleifsson, 18.4.2009 kl. 12:53

4 identicon

Þetta er svolítið sorglegur áróður. Hræðslan hjá þessum þremur mönnum hlýtur að stafa af því fyrst og fremst að þeir eru sjálfstæðismenn. Ætlar þú að segja mér það að ÖLL SJÁVARPLÁSS á landinu séu í hættu stödd ef vinstri leiðin verði farin?? Geturðu fullyrt það? Deloitte reiknaði þetta út ... og "margir fleiri"???? Hverjir eru þessir margir fleiri??

 Þetta er samskonar hræðsluáróður eins og Bush og félagar (John McCain var víst sá sem var í framboði samt) voru með ef bandarískir kjósendur myndu kjósa demókratann Obama (þá yrði landið viðkvæmara fyrir hryðjuverkaárásum!!!!!) Og hér er fullyrt að landið (sjávarútvegurinn) færi á hausinn ef vinstrimenn fengju að ráða... hmm...

ég ætla að treysta VG og Samfylkingu alla vega betur en Sjöllum nokkurn tíma!

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 13:38

5 Smámynd: Björn Halldór Björnsson

Einmitt Ingólfur, tími sjósukksins er liðinn.

Refsa ber öllum þessum aumingjum sem voru að gambla með "þjóðareignina" og komu henni óbeint í hendurnar á erlendum bönkum. Tími hræðsluáróðurs LÍÚ er liðinn.

Frekasta stétt landsins kemst ekki upp með það að ljúga að þjóðinni endalaust.

Björn Halldór Björnsson, 18.4.2009 kl. 13:51

6 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Delotta endurskoðun er alþjóðlegt glæpafélag sem ber einna mestu ábyrgð á öllu hruninu á Íslandi.

Þeir voru endurskoðendur Baugs hf, og margra annara sambærilegra skítabakaría.

Þessir þrír heiðursmenn sem skrifuðu greinarnar í Moggann og þú ert að vitna í eru allir hækjur og aumir leigupennar LÍÚ.

Það virðast ekki vera nein takmörk fyrir því hvað þetta kið er tilbúið að leggjast lágt enda eru þeir ráðnir til starfa af mafíosunum í Sjálfstæðisflokknum á hverjum stað.

Blessaður Golli farðu nú að gera eitthvað þarflegra en að gjamma eins og búrtík fyrir þessa andskotans glæpahunda og þjóðarmorðingja.

Níels A. Ársælsson., 18.4.2009 kl. 14:20

7 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Seigur er Halldór sem einu sinni bjó suður með sjó.

Alltaf reynir hann að reka fleyg á milli manna á Ísafirði og á Reykjavíkur svæðinu. Það gengur svo vel í vestfirska kjósendur. Ekki hef ég hef ég orði var við reykvíkinga með þessum hætti um ísfirðinga. 

Ef útgerðin verður gjaldþrota vegna þess að komið er að því að veiðiheimildunum er úthlutað eftir annari reglu enn hefur tíðkast undanfarin 18 ár.

Er það eitthvað sem útgerðarmenn hafa gert sjálfum sér án aðstoðar okkar sem vinnum við önnur störf.  E.t.v. hefur þeim hinum sömu tekist að veðsetja þjóðareignina (sem veiðiheimildir eru)  í einhverjum bankanum til að kaupa verslunarhúsnæði í Reykjavík. Kanski í Kringlunni í stað þess þá að byggja eitthvað upp fyrir almenning fyrir vestan

Það vill svo til, að við erum ansi margir sem höfum starfað á sjó og við sjávarsíðuna og jafnvel fyrir vestan.

 

Kristbjörn Árnason, 18.4.2009 kl. 14:27

8 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Þá ættuð þið Kristbjörn enn frekar að skilja mikilvægi þess að sjávarútvegs fyrirtækin fái að vera í friði. Það er óþolandi fyrir bæði eigendur og starfsfólk að vera alltaf sett á kosningauppboð á fjögurra ára fresti.

Ingólfur H Þorleifsson, 18.4.2009 kl. 14:40

9 Smámynd: Kristbjörn Árnason

  • Ég hef fullan skilning á því að fyrirtæki þurfi frið til að starfa,  Ingólfur.
  • En ég átta mig einnig á því, að það er einhver sem á auðlindina.
  • Það eru alls ekki einstakir útgerðarmenn.
  • Þetta veistu einnig Ingólfur, eða vilt kanski ekki vita það.  

Eins og þú veist auðvitað betur enn ég. Sjálf-stæðisflokkurinn predikar það, a.m.k.  að eigendur einhvers eigi að bera eðlilegan arð af eigum sínum.

Ef einhver annar óskar eftir því að fénýta þær.

En það er ekki svo, með auðlindina í sjónum.

Kristbjörn Árnason, 18.4.2009 kl. 15:14

10 Smámynd: Sigurður Jón Hreinsson

Hvernig væri nú að horfa til Færeyja.  Þar eru menn sem læra má góða hluti af.

Sigurður Jón Hreinsson, 18.4.2009 kl. 22:37

11 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Hver heldur þú að sé að gefa eitthvað fyrir skrif Elliða Vignissonar eða Halldórs Halldórssonar um þessi mál? Báðir þekktir og þá kannski sérstaklega Elliði, fyrir að skrifa og gera samþykktir í sínum bæjarstjórnum, eftir pöntun frá LÍÚ. Það er einfaldlega enginn að hlusta á þessa menn, enda algerlega grímulausir gæslumenn kvótakerfis Framsóknar og andskotans.

Halldór þessi þarf nú varla nokkra útgerð að verja lengur. Kerfið hefur lagt þar allt í rústir og hægt að taka þessar bæjarrústir hans sem skólabókardæmi um hvernig þetta hefur farið með einstakar sjávarbyggðir. Við þekkjum þetta allt í Þorlákshöfn líka, fyrrum blómlegum útgerðarstað hvar ekki væri hægt að reka einn frystitogara á öllum kvóta staðarins í dag.

Það vantaði nú ekkert annað en Sjálfgræðisforkólfurinn í sæti bæjarstjóra þar færi að mæra þennan skepnuskap?

Ég svo sem tryði honumalveg til þess, svona miðað við annað sem kemur frá FLokksmönnum þessa dagana.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 19.4.2009 kl. 07:44

12 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Já Hafsteinn, hann Golli hefur nú aldeilis ekki fyrir því að horfast í augu við sannleikan en velur þess í stað að kasta skít í alla þá sem eru ekki sammála glæpasamtökunum LÍÚ og þeirra fimm aura mellum.

Níels A. Ársælsson., 19.4.2009 kl. 08:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband