20.9.2008 | 13:15
Bókun atvinnumálanefndar.
Hún var ansi hreint skondin bókunin sem fram kom í atvinnumálanefnd Ísafjarðarbæjar í vikunni. Þar tóku sig saman tveir fulltrúar minnihlutans og annar fulltrúi Framsóknarflokksins og bókuðu eftirfarandi.
Vísum til umfjöllunar í BB 16. september sl. þar sem höfð eru eftir Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, ummæli um málefni samnings Ísafjarðarbæjar og Alsýnar ehf. Mótmælum harðlega afskiptum Halldórs Halldórssonar af málinu áður en Atvinnumálanefnd hefur náð að ljúka umfjöllun um endurskoðun á samningnum. Við teljum óeðlilegt að hann komi með slík inngrip á meðan málið er í vinnslu í nefndinni.
Eru þessir menn nokkuð búnir að gleyma að þessi nefnd er ráðgefandi nefnd á vegum bæjarins. Hennar hlutverk er að vinna fyrir stjórnendur bæjarins, ekki að ávíta þá fyrir að hafa skoðanir. Það vill þannig til að Halldór Halldórsson er æðsti embættismaður bæjarins og hann hefur fullt leyfi til að tjá sínar skoðanir við fjölmiðla án þess að fá leyfi hjá atvinnumálanefnd.
Upphlaup.....
Athugasemdir
Sæll Ingólfur.
Gott að sjá að þú getir séð skondnu hliðarnar á málunum. Hinsvegar var hvorki mér né öðrum, sem stóðum að þessari bókun, hlátur í huga.
Atvinnumálanefnd er ráðgjafandi nefnd. Bæjarstjórn og bæjarráði er í sjálfsvald sett hvernig það fer með þau erindi sem nefndin afgreiðir. Hinsvegar hefur nefndin ekki neina yfirmenn. Bæjarstjóri eða aðrir embættismenn geta ekki sagt nefndinni fyrir verkum og þaðan af síður pantað niðurstöður.
Þau orð sem höfð voru eftir Halldóri Halldórssyni eru hans persónulega skoðun og ekkert um það að segja. Það hefur hann skýrt vel fyrir mér og öðrum nefndarmönnum. Hver og einn hefur rétt á að vera með ákveðnar skoðanir og halda þeim fram. Hinsvegar þykir mér tímasetningin á þessari frétt afleit, degi fyrir lokaumferð á þessu máli í nefndinni.
Það er alveg ljóst að þessi ummæli Halldórs Halldórssonar urðu þess valdandi að fulltrúar Í-lista ákváðu að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna, en ella hefði niðurstaða nefndarinnar verið einróma.
Ég geri þær kröfur til embættismanna bæjarins að gæta orða sinna. Í þessu tilfelli hefði ég viljað að Halldór kysi að tjá sig ekki um málið á þessu stigi.
Sigurður Jón Hreinsson, 20.9.2008 kl. 23:58
Alveg er ég sammála þér Ingólfur. Mann rak í rogastans, að bæjarstjórinn mætti ekki hafa skoðun á þessum málum. Menn eru þarna að karpa um keisarans skegg og gleyma aðal atriðinu. Sem er þessi undarlegi samningur við Alsýn. Bæjarstjóri ber að sjálfsögðu ábyrgð á þessu máli og ber að upplýsa íbúa um stöðu mála. Ekkert hef ég séð frá blessaðri atvinnumálanefndinni.
Gunnar Þórðarson, 23.9.2008 kl. 11:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.