26.7.2007 | 21:06
Hver borgar brúsann ?
Í fréttumsjónvarpsins í kvöld var sagt frá því tjóni sem bílaleigur þurfa að bera vegna skemmda sem verða á bílum í þeirra eigu. Þar var rætt við starfsmann Hertz á Íslandi þar sem hann lýsti því hvernig málum er háttað. Í vor fór ég ásamt félaga mínum til Reykjavíkur, við pöntuðum bíl hjá Hertz en fengum að vísu Land Cruiser í staðinn fyrir Yaris vegna þess að hann var ekki til. Ekki þótti okkur það verra. Þegar ég kom að bílnum sá ég að hann var skemmdur að aftan. Ég var að hugsa um að fara inn til að benda þeim á þetta, en sá þá á samningnum að skemmdiin var merkt inn á blaðið þannig að ég var alveg rólegur. Bíllinn var reyndar mjög skítugur að innan en vegna þess að hann var þó nokkuð betri en sá sem ég pantaði þá gerði ég ekki athugasemd við það.
Ég ók því af stað í góðri trú og var með bílinn frá fimmtudegi til sunnudags. Á réttum tíma kom reikningurinn upp á rúm 200 hundruð þúsund, og þar inn í var skemmdin. Síðan var komin ítrekun áður en gjaldagi var kominn. Þá var gerð athugasemd vegna þess að bíllinn átti að kosta sama og sá sem við pöntuðum. Þeir samþykktu það. Síðan var gerð athugasemd við að bíllinn hafði verið skemmdur þegar við fengum hann. Það var samþykkt eftir að ég gat framvísað samningnum. Viku seinna kom nýr reikningur upp á 90 þúsund sem var að stærstum hluta sjálfsábyrgð fyrir tjóninu sem nú var búið að laga, þá var gerð athugasemd við það, en að endingu kom rétti reikningurinn. Vægast sagt furðuleg vinnubrögð hjá þessu fyrirtæki. Það varð mér því umhugsunarefni í kvöld þegar ég sá þessa frétt hvort að allir sem fá reikning frá bílaleigunni vegna skemmda, séu þeir sem ollu tjóninu.
Það er mikilvægt fyrir fólk að skoða vel þá bíla sem það tekur á leigu áður en ekið er af stað, það er aldrei að vita hvað stendur á reikningnum sem berst inn um lúguna mánuði seinna. Það er mér bæði ljúft og skilt að taka fram að oft áður hef ég tekið bíl hjá Hertz og aldrei lent í neinum vandamálum fyrr. Bílarnir hafa verið hreinir og snyrtilegir og reynst í alla staði mjög vel.
Betra að hafa vaðið fyrir neðan sig.....
Athugasemdir
Sæll
Starfaði hjá Hertz eitt sumar og get fullyrt að þar starfar yfir höfuð harðduglegt og heiðvirt fólk. Svona mistök geta komið fyrir og sér í lagi á há annartíma þegar álagið er gríðarlegt. Það er því miður nokkuð algengt að bílar séu tjónaðir enda fara margir mjög illa með bílaleigubíla. Það er alveg rétt hjá þér að fólk á að skoða bílinn sinn vel áður en lagt er af stað, því oft geta leynst skemmdir sem ekki eru fyrirfram merktar. Best að hafa allt á hreinu.
Fínn pistill
Örvar Þór Kristjánsson, 27.7.2007 kl. 11:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.