Að loknu prófkjöri

Nú þegar prófkjöri okkar sjálfstæðismanna er lokið og maður skoðar úrslitin þá vakna ýmsar spurningar. Prófkjörsnefnd ákvað reglur prófkjörsins út frá prófkjörsreglum flokksins og eftir þeim var unnið. Þessar reglur samþykktu allir þátttakendur.  Þar segir m.a. að flokksbundnir sjálfstæðismenn hafi kosningarétt í prófkjörinu. Margir hafa sagt að loka eigi kjörskrá t.d. mánuði fyrir prófkjörsdag. En núna var ákveðið að hafa þetta opið þannig að fólk gæti skráð sig allt til loka kjörfundar. Það opnar á að hægt sé að smala fólki í flokkinn með ýmsum aðferðum. Heyrst hefur að fólki hafi verið boðið að fá hjálp við að skrá sig úr flokknum aftur að loknu prófkjöri. Það eru ekki vinnubrögð að mínu skapi, en ekkert sem bannar fólki að gera það kjósi það svo.

Þegar settar eru reglur þá ber fólki að fara eftir þeim, og ég tel að allir frambjóðendur hafi verið innan þeirra marka. Það að bjóða fólki að ganga úr flokknum strax að loknu prófkjöri er eitthvað sem viðkomandi frambjóðendur verða að eiga við sína samvisku hafi þeir stundað slík vinnubrögð. Upp hafa komið þau sjónarmið að fólk sem gengur í stjórnmálaflokk eigi að vera skuldbundið til að vera í honum ákveðið lengi. Ég er sammála þessum sjónarmiðum og myndi vilja að slíkar reglur yrðu teknar upp.

Nú hlýt ég sem formaður fulltrúaráðsins að gleðjast yfir því að margir vilji ganga í sjálfstæðisflokkinn. Að sama skapi er ég vonsvikinn ef margir ganga úr honum strax aftur. Ég veit að það verður raunin að einhverjir gera það, en aðrir eru komnir til að vera. Það hlýtur að vera verkefni þeirra sem skipa munu lista okkar sjálfstæðismanna að fá þetta fólk til að kjósa flokkinn í vor. Verði það niðurstaðan er ég ekki hræddur við úrslitin, en ég er bara ekki viss um að það gerist. Endanleg kjörskrá hljóðaði upp á 992 flokksbundna sjálfstæðismenn í Ísafjarðarbæ. Við fengum 1054 atkvæði í síðustu kosningum. Miðað við þessar tölur þá vinnur Sjálfstæðisflokkurinn stórsigur í vor. En það er langur vegur frá að þetta sé svona auðvelt, það vitum við sjálfstæðismenn.

Nú er kannski auðvelt hjá ykkur lesendur góðir að álykta sem svo að ég sé bara tapsár og því tali ég svona. Vissulega eru það vonbrigði að ná ekki settu marki. Ég stefndi hátt og bauð mig og mín stefnumál fram, og þó að áhugi minn á því að vinna vel fyrir mitt sveitarfélag sé mikill þá er ég ekki tilbúinn að beita hvaða brögðum sem er til að komast í þá aðstöðu.  Niðurstaðan var áttunda sæti og vitandi það að ég stóð ekki í hringingum og skipulögðum smölunum þá er ég sáttur við að hafa fengið 375 atkvæði. Það segir mér að tæplega helmingur þeirra sem kusu settu mig í eitthvert sæti. Fyrir það er ég þakklátur.

Ingólfur Þorleifsson....

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband