Jólagjöfin er samstaða

Hér er leiðari sem ég skrifaði í jólablað Vesturlands, blaðs sjálfstæðismanna á Vestfjörðum.

Nú þegar jólin eru á næsta leyti eru stór mál sem brjótast um í hugum fólks á Íslandi. Margir standa frammi fyrir vandamálum sem engin vill komast í. Það gerist þrátt fyrir fögur fyrirheit fyrstu hreinu vinstri ríkisstjórnar lýðveldissögunnar. Hver kannast ekki við frasa eins og skjaldborg um heimilin, efling atvinnulífs og að standa vörð um velferðakerfið. Nú ellefu mánuðum eftir að ríkisstjórnin fékk umboð til að taka á vandanum hefur fátt gerst.

 Á meðan Bretar og Hollendingar ganga freklega á rétt okkar Íslendinga með þvingunum og kúgunum sem munu skuldbinda þjóðina í áratugi, kemst fátt á dagskrá hjá ríkisstjórninni annað en að láta pólitískt rómantíska drauma rætast. 

Samfylkingin sem siglir merkilega lygnan sjó þrátt fyrir mikla ábyrgð á hruni bankanna, hefur það eitt á sinni stefnuskrá að koma landinu í Evrópusambandið sama hvað það kostar. Það á að setja stóra peninga í að sækja um aðild þrátt fyrir þá staðreynd að mikill meirihluti þjóðarinnar vill ekki ganga í Evrópusambandið. Flest bendir reyndar til að þjóðin hafni aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu með miklum meirihluta. 

Vinstri grænir hinsvegar reyna eins og þeir framast geta að bregða fæti fyrir flestar þær framkvæmdir sem gætu orðið til að auka atvinnu, sérstaklega á suðvestur horninu þar sem atvinnuleysi er mest. Þar skiptir engu margra ára undirbúningsvinna sveitarstjórna og annarra heima í héraði. 

Ríkisstjórnin skilur einnig eftir fjölda spurninga innan sjávarútvegsins sem ekki fást svör við. Það eru einkennileg vinnubrögð þegar vitað er að sú grein er okkar helsta von út úr vandanum fái hún að vera í friði. Mikil óvissa hefur myndast innan greinarinnar vegna illa undirbúinna hugmynda að nýju kvótakerfi. 

En þrátt fyrir úrræðaleysi stjórnvalda má fólk ekki missa trúna á að við komumst út úr vandanum. Það mun gerast með samvinnu og samstöðu fólks úr öllum stéttum samfélagsins.

Íslendingar hafa áður staðið frammi fyrir vandamálum og tekist á við þau án þess að bugast.  Látum ekki dökk ský draga úr hátíðleika jólanna. Gefum okkur samstöðu í jólagjöf. 

Það er von mín að allir vestfirðingar eigi gleðileg jól og gæfuríkt komandi ár í vændum. 

Ingólfur Þorleifsson

Formaður stjórnar fulltrúaráðs

Sjálfstæðisfélaganna í Ísafjarðarbæ.  

Jólapólitík......            

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband