Spriklandi fiskur í körum.

IMG_1489Varaformaður sjávarútvegsnefndar Ólína Þorvarðardóttir hefur ekki farið leynt með hrifningu sína á strandveiðikerfinu sem sett var á til prufu í sumar. Hún hefur staglast á því í ræðu og riti hversu mikil breyting varð á öllu hér fyrir vestan eftir að veiðarnar hófust. Hafnir hafa lifnað við að nýju. Véladynur bergmálar í fjöllunum kvölds og morgna og síðast en ekki síst spriklandi fiskur í körum.

Af þessum rómantísku lýsingum að dæma kemur þingmaðurinn ekki oft niður á bryggju, ef hún hefur þá nokkurn tímann gert það yfirleitt. Bátar hafa nefnilega komið og farið svo bergmálað hefur í fjöllunum áður en strandveiðikerfið var sett á. Líf hefur verið á höfnunum, fiski landað og menn hugað að bátum sínum. Eitt er líka gott fyrir varaformann sjávarútvegsnefndar að vita, nefnilega það að fiskurinn er blóðgaður um leið og hann kemur um borð í bátana og kældur. Það eru því engar líkur á að hann sé enn spriklandi í körunum þegar bátarnir koma að landi.

Þingmaðurinn hins vegar talar ekkert um að nánast engin nýliðun var í þessu kerfi í sumar. Nýliðun voru einmitt helstu rök þingmannsins og hennar félaga þegar þetta frumvarp var lagt fram. Strandveiðarnar skiluðu 62 milljónum í aflaverðmæti í Ísafjarðarbæ í sumar. Það þýðir 807 þúsund krónur rúmar fyrir utan virðisaukaskatt í aflagjald til hafna Ísafjarðarbæjar. Hafnir landsins eru almennt í erfiðum rekstri og molar eru líka brauð og allt það, en Þessi upphæð er brotabrot af þeim upphæðum sem þau útgerðarfyrirtæki sem þegar voru að landa hér á svæðinu eru að greiða í aflagjöld á ári.

Þeim fyrirtækjum hinsvegar sér þingmaðurinn allt til foráttu og á þá ósk heitasta að aflaheimildirnar verði teknar af þeim, með hörmulegum afleiðingum fyrir svæðið í heild. Hverra hagsmuna er þá verið að gæta.

Þetta snýst ekki um rómantík......

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Jón Hreinsson

Golli.  Þetta snýst heldur ekki um að snúast eins og köttur í kringum heitan graut, í kringum eigendur kvótans.  Það vald sem þeir hafa til að ákveða líf eða dauða byggðarlaga og jafnvel heilla landshluta er hvorki gott fyrir þá né okkur.  Í reynd snýst þetta um atvinnufrelsi.

Og það er einhvað sem hægrimenn mættu gjarnan taka sem sjálfsögðum réttindum allra manna.

Sigurður Jón Hreinsson, 7.10.2009 kl. 00:05

2 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Golli.

Ég hef hvergi séð það eða heyrt nokkun mann tala fyrir því að sá smánar kvóti sem eftit er á Vestfjörðum verði tekinn af svæðinu.

Þegar þú varst lítill heyrðir þú aldrei fólkið þitt tala um spriklandi fisk í potti ?

Ég var að skoða þessar tölur þínar um strandveiðarnar í Ísafjarðarbæ og fæ ekki betur séð en að tekjur hafnarinnar hefðu orðið nálægt 450 þúsund krónum miðað við Verðlagsstofuverðið sem Gunnvör og fleiri greiða sínum sjómönnum.

Þannig að þessar fullyrðingar þínar eru beinlínis rangar.

Hefur þú hugleitt hvers vegna rekstur hafnanna gengur svona illa ?

Ég get gefið þér eitt smá dæmi.

Verð á þorski, ýsu og steinbít er í flestum tilfellum 30 til 100% hærra á fiskmörkuðum en það verðlagstofuverð sem td, Gunnvör greiðir sínum sjómönnum.

Reiknaðu svo á ársgrundvelli samfélagslegan skaða sveitarfélagsins, hafnarinnar, lífeyrissjóðsins, stéttarfélaganna og ríkisins af núverandi fyrirkomulagi !

Níels A. Ársælsson., 7.10.2009 kl. 09:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband