25.5.2009 | 22:14
Heimildarmaður Skutuls innan Sjálfstæðisflokksins.
Ég gat nú ekki annað en brosað út í annað í morgun þegar ég las frétt á skutull.is um meintar deilur sjálfstæðismanna í Ísafjarðarbæ um fyrningaleiðina og kvótakerfið. Áður hefur verið frétt um klofning í meirihluta bæjarstjórnar í málinu. Í fréttinni í dag er vitnað í heimildarmann innan Sjálfstæðisflokksins. Þar er sagt orðrétt. "Öruggar heimildir skutuls.is innan Sjálfstæðisflokksins segja að sumir hafi viljað kalla saman sérstakan fund í bæjarmálaráði flokksins í Ísafjarðarbæ, til að ræða afstöðu hans, áður en kemur að næsta fundi bæjarstjórnar, þar sem málið verður til umræðu"
Eitthvað eru þessar heimildir nú lélegar. Bæjarmálaráðið fundaði nefnilega í byrjun síðustu viku þar sem þetta mál var m.a. rætt. Það er ekkert leyndarmál að í Sjálfstæðisflokknum eru ekki allir á sömu skoðun, svoleiðis hefur það aldrei verið, hvorki í kvótamálum né öðrum.
En á þeim sama fundi var hinsvegar meira rætt um úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar og aðgerðarleysi gagnvart heimilum og fyrirtækjum á landinu sem mörg hver eru að fara í þrot vegna seinagangs stjórnvalda. Um það ástand er hins vegar ekki hægt að lesa á óháða landsmálavefnum skutlull.is, enda passar þetta ekki við ímynd aðalfréttaritara vefjarins. Þar er heldur ekkert að finna um að stjórnarflokkarnir eru ekki á eitt sammála um að fara fyrningaleiðina ef tekið er mið af orðum sjávarútvegsráðherra. Það ætti þó að vera hægara um vik fyrir ritstjórnina að fá heimildir á stjórnarheimilinu en í Sjálfstæðisflokknum. Það sannast því enn og aftur að skutull.is er langt frá því að vera óháður fréttamiðill.
Fréttaritarinn hefur gefið sér tíma frá mikilvægum þingstörfum til að hafa uppá heimildarmanni sínum í Sjálfstæðisflokknum á Ísafirði, og skrifa frétt um málið. Hún hafði hins vegar ekki tíma til að hafa samband við forystufólk flokksins á Ísafirði, gott hjá henni.
Óháður vefmiðill......
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.