Siðblinda á hæðsta stigi.

Þetta sýnir manni bara hvernig þessir menn hugsa. Þeir eru búnir að stela af saklausu fólki árum saman og svo þegar blaðran springur þá er allt einhverjum öðrum að kenna. Ég kalla það að stela af fólki þegar innlán eru notuð til að braska með, og þeir voru enn að plata fólk og félagasamtök til að leggja inn á Icesave rétt áður en allt fór á hausinn. Það þarf enginn að segja mér að þessir menn hafi ekki vitað fyrir löngu að þetta gat ekki gengið upp.

Ég skal alveg viðurkenna það að ég bar mikla virðingu fyrir Björgólfi Guðmundssyni. Manninum sem vann sig upp úr gæsluvarðhaldi í Hafskipsmálinu, í að verða einn ríkasti maður heims. Hann var örlátur við að styrkja við góð málefni og kom alþýðlega fram. En eftir að hafa séð hversu siðblindur hann er í raun hef ég glatað allri virðingu fyrir þessum manni. Svo er einnig um alla hina kumpánana sem hafa steypt þjóðinni í langvarandi skuldir.

Þessir menn ættu að kunna að skammast sín......


mbl.is Krónan stærsta vandamálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Einarsson

Hvernig er hægt að kalla það þjófnað þegar fólk og félagasamtök leggja inn peninga á reikninga af fúsum og frjálsum vilja ?

Sævar Einarsson, 25.10.2008 kl. 14:59

2 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Það er ekki þjófnaður að leggja inn. En þegar peningarnir eru ekki fyrir hendi þegar fólk ætlar að taka þá út þá er það þjófnaður. Hvert skildu peningarnir hafa farið ?

Ingólfur H Þorleifsson, 25.10.2008 kl. 15:07

3 Smámynd: Sævar Einarsson

Spurðu Gordon Brown af því.

Sævar Einarsson, 25.10.2008 kl. 15:14

4 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Golli.

Undirrótin af allri þessari siðblindu kemur úr veðsetningu aflaheimilda sem aldrei var nein innistæða fyrir.

Hvað ætlaru að kjósa næst ?

Níels A. Ársælsson., 25.10.2008 kl. 17:54

5 Smámynd: Tori

Sé ekki fyrir mér nokkurn þessara manna sem eru í forsvari flokkana á þingi meir. Þeir vissu um vandamálið fyrir rúmu ári eins og hefur komið fram í viðtali við Björgvin bankamálaráðherra. Hann og aðrir ráðherra svo sem Árni, Geir og aðrir sem að málinu komu eiga að segja af sér við fyrsta tækifæri. Að láta þessa áhættu sem Landsbankinn var búinn að koma þjóðinni í líðast er óafsakanlegt. Þetta er mestu afglöp Íslandssögunar. Er einhver sem sér ekki rimlana.....................

Tori, 25.10.2008 kl. 18:06

6 identicon

Fyrir þá sem vilja rifja upp!
 
Fimmtudaginn 6. júní, 1991 - Miðopna

Dómur Hæstaréttur í Hafskipsmáli: Sakfellt fyrir mun fleiri atriði en í



Dómur Hæstaréttur í Hafskipsmáli: Sakfellt fyrir mun fleiri atriði en í undirréttinum Hinir ákærðu greiði stærri hluta málsvarnarlauna og sakarkostnaðar

HÆSTIRÉTTUR hefur, með dómi sem kveðinn var upp í gær, dæmt þrjá fyrrum forsvarsmenn Hafskips hf. til skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir brot á almennum hegningarlögum og lögum um hlutafélög og Helga Magnússon fyrrum löggiltan endurskoðanda fyrirtækisins til greiðslu 500 þúsund króna sektar fyrir brot á lögum um löggilta endurskoðendur. Ragnar Kjartansson, fyrrum stjórnarformaður Hafskips, er dæmdur til fimm mánaða fangelsisvistar, Björgólfur Guðmundsson, fyrrum forstjóri fyrirtækisins, til 12 mánaða fangelsisvistar og Páll Bragi Kristjónsson er dæmdur til tveggja mánaða fangelsisvistar. Refsing allra er skilorðsbundin til tveggja ára. Refsing Páls Braga er sú sama og í sakadómi Reykjavíkur á síðasta ári, refsing Björgólfs er þyngd úr 5 í 12 mánaða fangelsi en Ragnar Kjartansson, sem nú er dæmdur í fimm mánaða fangelsi, hafði verið sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í sakadómi, eins og þeir þrettán sakborningar sem ekki var áfrýjað gegn. Með dómi Hæstaréttar eru Hafskipsmennirnir fjórir sakfelldir fyrir meirihluta þeirra fjölmörgu atriða sem þeim var gefið að sök í áfrýjunarstefnu sérstaks ríkissaksóknara, en í sakadómi var brot aðeins talið sannað í sex ákæruliðum.

Meðal annars er það niðurstaða Hæstaréttar að brotið hafi verið gegn hlutafélagalögum við gerð reikningsskila í milliuppgjöri fyrstu átta mánuði rekstrarársins 1984 og í tengslum við ársreikning þess árs. Hins vegar er sýknað af ákærum um hegningarlagabrot í tengslum við gerð reikningsskilanna. Sakadómur hafði sýknað jafnt af brotum á almennum hegningarlögum og hlutafélagalögum í öllum ákæruatriðum sem tengdust reikningsskilum félagsins en Hæstiréttur telur að í 6 tilvikum af 9 sem ákært var út af varðandi milliuppgjörið og í 6 tilvikum af 8 varðandi ársreikninginn hafi ekki verið gefin rétt mynd af eiginfjárstöðu félagsins. Ekki er sakfellt vegna eignfærslu á gámum, sem eignfærðir höfðu verið í bókum félagsins með tilvísun til kaupleigusamnings en ákæruvaldið taldi að um rekstrarleigu hefði verið að ræða og því hefði verið óheimilt að eignfæra gámana. Þá telur Hæstiréttur að sú aðferð sem fyrirtækið viðhafði við lotun flutningsgjalda af ferðum sem stóðu fram yfir uppgjörsdag, að færa allar tekjur miðað við upphafsdag ferðar, hafi ekki gefið rétta mynd af eiginfjárstöðu félagsins. Hins vegar hafi þessi færsla verið í samræmi við það sem áður tíðkaðist hjá félaginu og því sé ósannað að ákærðu hafi haft ásetning um að rangfæra hvað það varðar.

Vissu að milliuppgjör var misvísandi

Hæstarétti þótti ekki fram komnar sannanir fyrir því að milliuppgjörið hafi verið til þess fallið að villa um fyrir stjórnarmönnum félagsins um hag þess og voru Hafskipsmenn sýknaðir af ákæru um brot gegn 1. mgr. 151. gr. laga um hlutafélög. Þá þykir ósannað að milliuppgjörið hafi verið gert og sent Útvegsbankanum í blekkingarskyni en þeir Björgólfur, Ragnar og Páll Bragi þykja með því að senda milliuppgjör sem þeir vissu að var misvísandi og meðan þeir áttu í viðkvæmum viðræðum við bankann hafa orðið sekir um brot á 2. málsgrein 152. greinar laga um hlutafélög. Þar segir að ef sá sem stjórnar hlutafélagi eða kemur að öðru leyti fram fyrir hönd þess hermi vísvitandi rangt eða villandi um efnahag félags eða eignir í skjölum, bréfum til viðskiptamanna, umburðarbréfum eða tilkynningum eða skýrslum til opinberra aðila varði það sektum eða varðhaldi. Í dómi Hæstaréttar segir að líta verði til þess að ákærðu höfðu í bréfum til bankans á þessum tíma lagt ríka áherslu á alvarlegt fjárhagsástand félagsins.

Um ársreikning ársins 1984 segir Hæstiréttur að gegn staðfastlegum neitunum Björgólfs, Helga og Ragnars þyki ósannað að þeir hafi haft ásetning til þess að rangfæra efnahagsreikning ársreiknings í heild í blekkingarskyni og beri því að sýkna þá af kröfum ákæruvaldsins um brot á 1. mgr. 158 gr. almennra hegningarlaga um rangfærslu skjala. Vísað er til umfjöllunar um einstaka liði ársreikningsins og sagt að fram sé komið að í ársreikningnum sé villandi frá skýrt í nokkrum veigamiklum atriðum. Björgólfur, Helgi og Ragnar beri allir, hver á sinn hátt, ábyrgð á því að þannig tókst til. Beri því að fallast á með ákæruvaldinu að þeir hafi orðið brotlegir við 1. tölulið 151. greinar hlutafélagalaga þar sem segir að það varði sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum að skýra vísvitandi rangt eða villandi frá högum hlutafélags eða öðru er það varðar í ársreikningi. Hæstiréttur segir að taka beri tillit til þess að stjórnarmönnum í Hafskip hafi verið kunnugt um færslur sumra hinna umræddu liða, meðal annars hafi þeir vitað að starfskjörum Björgólfs og Ragnars hafi verið að nokkru haldið leyndum. Þá beri að taka tillit til þess að samkvæmt skýrslu bankastjóra Útvegsbanka Íslands um fyrirgreiðslur til Hafskips hafi þær ekki hækkað af völdum bankans eftir útkomu ársskýrslunnar. "Brot ákærðu beinast þannig aðallega að hluthöfum en ársreikningurinn var til umfjöllunar á aðalfundi í júní 1985," segir í dómi Hæstaréttar.

Helgi Magnússon er talinn hafa brotið gegn ákvæðum 10. greinar laga um löggilta endurskoðendur með því að ekki hafi komið fram í áritun hans á milliuppgjör að hann hefði ekki endurskoðað það og varðandi áritun ársreiknings, sem var samstæðureikningur, hafi ekki komið fram nægir fyrirvarar um endurskoðun reikningsskila erlendra dótturfélaga Hafskips og um að ekki höfðu verið endurskoðuð fylgiskjöl með greiðslum af tékkareikningum sem voru í vörslu Ragnars og Björgólfs.

Fjárdráttur og bókhaldsóreiða

Ragnar og Björgólfur voru sakfelldir af meirihluta Hæstaréttar fyrir stærstan hluta ákæruatriða þar sem þeim var gefið að sök fjárdráttur, bókhaldsóreiða og í tveimur tilvikum umboðssvik sem lutu að meðferð á sérstökum tékkareikningum sem þeir fóru með og áttu að standa skil á. Um er að ræða fjárhæðir sem nema hundruðum þúsunda á verðlagi 1983 til 1985. Samkvæmt launakjörum Björgólfs og Ragnars var þeim heimilt að ráðstafa allt að 60% ofan á föst laun til greiðslu ýmis kostnaðar í tengslum við störf þeirra. Björgólfur og Ragnar töldu að um hefði verið að ræða launauppbót sem þeim hefði verið heimilt að ráðstafa að fyrrgreindu hámarki að eigin vild. Ákæruvaldið taldi að öll útgjöld sem undir þetta væru felld yrðu að tengjast starfi þeirra en mættu ekki nema hærri upphæð en 60% launa og á því byggir Hæstiréttur og segir að saknæmi verknaðar samkvæmt þessum liðum fari eftir því hvort viðkomandi greiðslur verði á einhvern hátt taldar félagsins samkvæmt rúmri skilgreiningu endurskoðandans sem fái stoð í framburðum þeirra stjórnarmanna sem samið hafi við Björgólf og Ragnar um viðbótarkjör þeirra.

Meðal þess sem Björgólfur og Ragnar eru sakfelldir fyrir samkvæmt þessu er að láta félagið endurgreiða sér vaxtakostnað í tengslum við hlutafjárkaup þeirra í félaginu og ýmsar aðrar ráðstafanir, sem Hæstiréttur telur ósannað að hafi tengst félaginu. Sýknað er af nokkrum ákæruliðum sem Hæstiréttur telur rúmast innan heimildanna. Samtals telur Hæstiréttur sannað að Björgólfur hafi gerst sekur um fjárdrátt á rúmum 541 þúsund krónur með því að láta færa ranglega í bókhald Hafskips sem kostnað félagsins greiðslur sem félaginu voru óviðkomandi. Ragnar er talinn sannur að því að hafa dregið sér 607 þúsund krónur með sama hætti, þ.e. að láta færa ranglega sem kostnað félagsins það sem átt hefði að færa sem laun til hans. Einnig er Björgólfur meðal annars talinn sekur um að hafa dregið sér 163 þúsund krónur samkvæmt þessum krafla en á þeirri greiðslu hafði hann gefið þá skýringu að um hefði verið að ræða mútufé til erlendra manna til að tryggja félaginu ákveðna flutninga til landsins.

Páll Bragi Kristjónsson var talinn sekur um það að hafa á árinu 1983 notað til gjaldfærslu í bókhaldi félagsins falsaða reikninga, sex að tölu, sem allir hafi verið fyrir annað en á þá var skráð. Um var að ræða greiðslur til manna utan félagsins, sem framvísuðu tilbúnum reikningum fyrir annað en þá þjónustu sem þeir höfðu innt af hendi.

Í lok dóms Hæstaréttar eru niðurstöður hans dregnar saman með þessum hætti: "Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða í dómi þessum að ákærðu eru sakfelldir eftir ákæru eins og hún var hér dómi (svo) en þó aðeins að nokkru leyti. Vegna reikningskila Hafskips hf., sem miðuð voru við 31. ágúst 1984, eru ákærðu Björgólfur Guðmundsson, Ragnar Kjartansson og Páll Bragi Kristjónsson taldir hafa brotið 152. gr. 2. mgr. laga um hlutafélög nr. 32/1978 en ekki almenn hegningarlög. Ákærði Helgi Magnússon er vegna sömu reikningsskila talinn hafa brotið 10. gr. sbr. 17. gr. laga nr. 67/1976 um löggilta endurskoðendur, en ekki almenn hegningarlög. Vegna ársreikningsgerðar Hafskips hf. fyrir árið 1984 eru Björgólfur, Ragnar og Helgi taldir hafa brotið 151. gr. 1. tl. laga um hlutafélög og Helgi einnig fyrrgreind ákvæði laga um endurskoðendur en þeir voru ekki taldir hafa gerst sekir um hegningarlagabrot vegna ársreikninganna. Björgólfur og Ragnar eru taldir hafa brotið 247. gr. almennra hegningarlaga um fjárdrátt með tilteknum ráðstöfunum, sem tengdust samningum um starfskjör þeirra hjá Hafskip hf og sérstökum hlaupareikningum, sem þeir höfðu til ráðstöfunar, svo og 262. gr. sömu laga um bókhaldsóreiðu. Ákærði Helgi Magnússon er sýknaður af ákæru um hilmingu í þessum hluta ákæru. Páll Bragi Kristjónsson er talinn hafa brotið 155. grein almennra hegningarlaga um skjalafals vegna 6 reikninga, sem Hafskip hf. greiddi. Þá er Björgólfur Guðmundsson talinn hafa brotið 247. grein almennra hegningarlaga um fjárdrátt vegna ýmissa tiltekinna greiðslna úr almennum sjóði Hafskips hf. Tvö brot sama manns eru talin varða við 249. grein laganna, sem fjallar um umboðssvik."

Refsing Björgólfs, Ragnars, Helga og Páls Braga var ákveðin sem að ofan greinir. Ekki þóttu efni til að taka til greina kröfu ákæruvaldsins um að Helgi Magnússon yrði sviptur réttindum löggilts endurskoðanda. Hinum ákærðu var gert að greiða að 3/5 hlutum málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna í héraði og Hæstarétti og óskipt 600 þúsund krónur í saksóknarlaun til ríkissjóðs. Annar sakarkostnaðir var felldur á Björgólf að 1/10 hluta, Ragnar að 1/20 hluta, og Pál Braga og Helga að 1/40 hluta hvorn. Áfrýjunarkostnaður var lagður á þá óskipt að 3/5 hlutum. Með dómi Hæstaréttar er hinum ákærðu gert að greiða mun stærri hluta málsvarnarlauna og sakarkostnaðar en með dómi sakadóms Reykjavíkur.

Sératkvæði eins dómara

Málið dæmdu hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Guðmundur Jónsson, Hrafn Bragason og Þór Vilhjálmsson, ásamt Jóni G. Tómassyni hæstaréttarlögmanni.

Jón G. Tómasson skilaði sératkvæði og vildi sýkna ákærðu af ákærum í tengslum við reikningsskil félagsins og einnig af nokkrum þeim liðum sem lutu að meðferð hinna sérstöku tékkareikninga. Hann vildi staðfesta ákvörðun refsingar í dómi sakadóms að öðru leyti en því að hann taldi refsingu Björgólfs hæfilega skilorðsbundið fangelsi í 7 mánuði og vildi að Ragnari yrði gert að greiða 200 þúsund króna sekt sem hann teldist hafa staðið skil á með afplánun 28 daga gæsluvarðhalds.

Morgunblaðið/KGA

Verjendur sakborninganna hlýða á dómsorðið. Frá vinstri: Guðmundur Ingvi Sigurðsson hrl., Jónas A. Aðalsteinsson hrl., Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. og Jón Magnússon hrl.

Hæstiréttur. Frá hægri: Jón G. Tómasson, hrl., hæstaréttardómararnir Guðmundur Jónsson, Guðrún Erlendsdóttir, Þór Vilhjálmsson, Hrafn Bragason og Erla Jónsdóttir hæstaréttarritari.

Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 25.10.2008 kl. 19:22

7 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Þetta er góð spurning hjá þér Níels. Ég vona nú að það komi ekki til þess að það þurfi að kjósa alveg á næstunni. Ég geri mér hins vegar alveg ljóst að það verður mikið verk að fara í kosningarbaráttu fyrir Sjálfstæðismenn eftir allt það sem á undan er gengið.

Það er á hreinu að það verða miklar breytingar á hinu pólitíska landslagi næst þegar kosið verður. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt að hann muni axla sína ábyrgð þegar þar að kemur. Ég hef fulla trú á að hann standi við það.

Ég er og verð sjálfstæðismaður og mun reyna að leggja mitt af mörkum til að koma flokknum út úr þessum ólgusjó sem hann er kominn í. Það verður ekkert auðvelt, svo mikið er víst.

X-d Hjá mér áfram.

Ingólfur H Þorleifsson, 25.10.2008 kl. 21:30

8 Smámynd: Róbert Guðmundur Schmidt

Það verður fróðlegt að sjá hvort og hvernig menn verða dregnir í ábyrgð fyrir þetta fjármálamisferli sem bitnar að mestu á saklausum almenningi? Svo segja ráðamenn,- herðið sultarólarnar gott fólk, framundan er kreppa. Veit ekki betur en að sultarólin fræga sé nú að verða komin í hring og rúmlega það. En það þarf engin að segja mér það að þessir "útrárarkóngar" séu alslausir í dag. Þeir eru allir sem einn búnir að koma fjármunum sínum fyrir á öruggum stað og eru langt því frá búnir að missa allt. Almenningur vissi þetta fyrir rúmu ári og ráðamenn bankana vissu allan tíman hvað myndi gerast á endanum. Nú gengu þeir bara út og reyna að klína þessu á utanaðkomandi orsakir. Djöfullsins bull og þvæla í þessum jólasveinum sem komu alltof snemma til byggða.

Róbert Guðmundur Schmidt, 25.10.2008 kl. 23:41

9 Smámynd: Ársæll Níelsson

Alveg ótrúlegt hvað flokkshollustan getur verið skynseminni yfirsterkari. Þetta er ekki eins og að halda með fótboltaliði. Flokkurinn er ónýtur sem og reyndar allir flokkarnir. Held það sé mikilvægt að hætta þessari flokkapólitík.

En annars er ég sammála færslunni.

Ársæll Níelsson, 26.10.2008 kl. 10:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband