13.10.2008 | 17:59
Fráleitur umhverfisráðherra.
Þessi arfavitlausa ákvörðun um heildstætt umhverfismat á Bakka hefur ekkert að gera með EES samninginn. Ef að við ætlum að komast út úr þessu skuldafangelsi sem við virðumst vera kominn í, þá á að byrja á að losa okkur við þennan ráðherra sem er vanhæfur í öllu sem lítur að virkjunum og stóriðju vegna síendurtekinna yfirlýsinga um álit hennar á slíkum málum. Síðan á að setja lög sem losa okkur við allt sem heitir umhverfismat, grenndarkynning og hvaða nöfnum þetta heitir allt saman.
Það sem kemur okkur á beinu brautina aftur eru aukin umsvif sem skila tekjum til landsins. Setja kraft í stórframkvæmdir. Auka veiðiheimildir og styrkja sjávarútveginn, því það er alltaf hann sem bjargar okkur þegar í óefni stefnir.
Minna bull-meiri pening.....
Allt í fína á Bakka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér finnst þú fyndinn maður Ingólfur. Einmitt, að bregðast við erfiðum tímum með óðagoti, fljótfærni og að hlaupa fram fyrir hendurnar á sér.
Nú er ég hvergi flokksbundinn og á góða vini í flestum flokkum, en mér þykir sjálfstæðismenn hafa hegðað sér afburða móðursýkislega í kringum þetta Bakkamál, rétt eins og ráðherra eigi ekki að bera faglega ábyrgð á umhverfismálum, heldur að hegða sér eins og Siv Friðleifsdóttir gerði og vera stimplahaldari fyrir umhverfisráðherra.
Það eru kannski vinnubrögð sem sjálfstæðismönnum þykja sjálfsögð? Slíkt ósjálfstæði og algjör vanvirðing fyrir faglegum vinnubrögðum?
Þórunn Sveinbjarnardóttir er fyrsti almennilegi umhverfisráðherrann í mörg ár hér á landi, enda er það hlutverk þess ráðuneytis að gæta hagsmuna umhverfismálanna en ekki ganga erinda framkvæmdabransans gagnrýnilaust. Það verður nefnilega í lýðræðisríki að gæta þess að ákveðnir aðilar vaði ekki alltaf áfram eins og nashyrningar á kostnað allra annarra.
Svona stalínískar stórlausnir eins og aukin umsvif, kraftur í stórframkvæmdir og gjörnýting auðlinda á ekki eftir að skila neinu öðru en enn meiri svona vitleysu eins og við erum að lenda í núna, rétt eftir að hagstjórnarstefna ofurfrjálshyggjumanna hefur beðið enn eitt skipbrotið.
Eigum við ekki að minnka líka peningabullið og hugsa kannski aðeins um börnin okkar, fjölskyldurnar og samfélagið? Slaka aðeins á þessu dómadags neyslu- og efnishyggjutali og fara að hugsa um fólk og mannleg verðmæti...
Svavar Knútur Kristinsson, 13.10.2008 kl. 18:23
Það geta ekki allir bjargað heiminum með kassagítar að vopni, íklæddir lopapeysum. Íslendingar eru vinnusöm þjóð og þannig höfum við spjarað okkur best. Við kaupum ekki í matinn fyrir einhverjar þúfur á hálendinu, svo mikið er víst.
Ingólfur H Þorleifsson, 13.10.2008 kl. 19:10
Sæl Jóna.
Það er alveg á hreinu að Sjálfstæðisflokkurinn ber sína ábyrgð á þessu eins og margir aðrir. Ég veit svo sem ekkert hvernig verður tekið á því í framtíðinni, en að sjálfsögðu eiga þeir að taka ábyrgð á sínum verkum eins og aðrir. Hvað varðar stjórn efnahagsmála þá hefur þjóðin bara ekki treyst ykkur enn til að leiða ríkisstjórn og vonandi á það ekkert eftir að breytast í bráð.
Ingólfur H Þorleifsson, 13.10.2008 kl. 19:55
Vá! Var þetta ekki kafteinn málefnalegur mættur á svæðið?
Lopapeysa og kassagítar? Er gervöll tilvist mín, menntun, hugmyndaauðgi, starfsferill og framlag til samfélagsins undanfarin ár smættuð í tvö orð? Lopapeysa og kassagítar? Viltu ekki bæta aðeins í málefnaleikann og spyrja mig hvort ég vilji ekki drekka smá blómálfasaft áður en ég fer að týna fjallagrös uppi á heiði af því ég sé svo mikill umhverfisálfur?
Ekki það að það komi mér á óvart að í stað þess að bregðast við með málefnalegum og uppbyggilegum hætti fari menn í svona sleggjudómagír og sleppi því alfarið að leggja í nokkra vitsmunalega umræðu um málin. Eftir allt saman er líka miklu auðveldara að afgreiða menn sem hálfvita heldur en að hleypa að glætu af þeirri hugsun að kannski, bara kannski, sé hægt að ræða málin málefnalega og viðmælandinn hafi eitthvað til síns máls.
Rétt eins og Vinstri Græn voru víst bara slefandi fávitar þegar þeir vöruðu við óheftri útrásinni á sínum tíma og mæltu með að bankarnir einbeittu sér frekar að því að styrkja íslenskt atvinnulíf. Og ég er viss um að þeir eru það enn...
En hvað ég vildi að Íslendingar gætu hætt þessum skotgrafarhernaði og lyft sér upp á aðeins hærra vitsmunaplan. En það er víst ekki hægt fyrir öllum þessum lopapeysuhippum með kassagítarana.
Svavar Knútur Kristinsson, 13.10.2008 kl. 19:59
Svona aðeins til að bæta við svarið kæri Ingólfur.
Mér finnst mjög ósanngjarnt og lélegt að afgreiða menn með vísan í störf þeirra. Það geta ekki allir heldur bjargað landinu með því að vera trésmiðir eða sjómenn eða bankastjórar eða kennarar. Ekkert eitt starf er eitthvað altmuligtstarfið sem er patent lausnin og það að ég skuli hafa valið að starfa sem tónlistarmaður færir engan alheimssannleik um það að ég líti á það sem endanlega lausn í öllum efnahagsmálum að allir eigi að vera trúbadorar? Ef þú heldur raunverulega að menn séu það þroskaheftir sem á annað borð eru skrifandi á íslenska tungu, þá veit ég ekki alveg úr hvaða sveit þú kemur.
Eins illa og mér er við að verja starfsval mitt fyrir misfordómafullu fólki, skal ég gera undantekningu.
Já, ég hef starfað sem tónlistarmaður frá unga aldri, alltaf sem aukastarf að vísu, þar sem ég var sjálfur með fordóma gagnvart því að vera bara tónlistarmaður, langaði til að bæta við mig sjálfur. Ég starfaði því sem blaðamaður á Morgunblaðinu í þrjú ár, vefstjóri hjá Nýherja í eitt, ég fór á sjó, vann í sveit, starfaði sem forvarna- og félagsauðsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg í tvö og hálft ár, þar sem ég m.a. vann að nýsköpun og stefnumótun í bættum lífsstíl ungs fólks og náði góðum árangri á mörgum sviðum þar auk þess sem ég vann og vinn enn við að efla samfélagsstoðir í hverfum þar sem þeirra er þörf.
En Sjálfstæðismenn ættu einmitt manna helst að virða það að menn fari að selja þá vöru sem þeir framleiða best, að nýta þær auðlindir sem þeir hafa. Mín auðlind er tónlistargáfa og þegar ég var farinn að afla meira af henni en dagvinnunni og Klassíska söngnámið var farið að bætast ofan á, varð ég að velja. Því orkan sem ég hafði til dagvinnunnar var farin að rýrna og með góðri samvisku gat ég ekki leyft mér að hirða pening af borginni fyrir 70% störf. Því hætti ég í því starfi og er nú að kenna eftirmanni mínum á reipin. Ég er tónlistarmaður af því það virkar fyrir mig, mikil eftirspurn er eftir vörunni sem ég hef að selja og ég er góður í því sem ég geri. Sem er annað en hægt er að segja um stjórnmálamenn og bankastjóra þessa lands þessa dagana.
Mér finnst engin niðrun í því að starfa sem listamaður. Það er hörkustarf, ekki ólíkt sjómennsku. Það krefst mikillar skipulagshæfni, hörkudugnaðar og sköpunargleði auk taumlauss áhuga á lífinu, tilverunni og öllu sem í henni fylgir. Það þarf þolinmæði, áræðni og áhættusækni. Ég hef kosið að vera sjálfstætt starfandi atvinnurekandi á tímum þar sem allir aðrir virðast vilja hlaupa undir verndarvæng eins stórs atvinnurekanda.
Það er þá kannski spurning hvor okkar getur frekar kallað sig sjálfstæðismann að sönnu Ingólfur, ég eða þú!
Svavar Knútur Kristinsson, 13.10.2008 kl. 20:12
Ég sé bara enga fordóma í þessu svari hjá mér. Ég hélt að það væri þín atvinna að vera tónlistamaður, og það geta ekki allir verið í því.
Ég hef alls ekkert á móti listamönnum yfirleitt. Eins efa ég ekki að þér er margt til lista lagt á hinum ýmsu sviðum og getur sjálfsagt unnið við flest störf Svavar. Það er bara líkt á komið með okkur sjálfstæðismönnum og ykkur sem viljið vernda landið. Við sjáum bara eina leið, að vísu ekki þá sömu en báðar eru þær einu réttu.
Mér sýnist að við séum sammála um að vera ósammála um það.
Ingólfur H Þorleifsson, 13.10.2008 kl. 20:37
Skrýtið þykir mér að allir þeir sem vilja vernda landið séu settir undir einn hatt og séu sagðir allir sjá eina leið til að bæta ástandið hér á Íslandi.
Ég hef t.d. aldrei sagst vera á móti virkjunum. Kannski ef fólk hætti að vera með hleypidóma um aðra og væri tilbúið að hlusta og ræða málin, þá gætum við byrjað að sjá að við erum fjölbreyttari en þessi fáránlega einföldunarstefna málar okkur.
Heimurinn er ekki svarthvítur og svo sannarlega eru skoðanir fólks hér á landi það ekki, það er bara einfaldara fyrir þá sem halda að stjórnmál séu stríð að þau séu það, þá er auðveldara að nota rökvilluna "Við og hinir" til að skipa fólki í hersveitir í stað þess að ræða málin og skoða alla möguleika.
Bara af því ég sé ekki maður stóriðjulausna þar sem hundruð manna eru öll sett undir einn vinnustað þar sem hæfileikar þeirra og mannleg fjölbreytni njóta sín ekki frekar en fólk væri sauðfé og sjái frekar tækifærin í einstaklingsframtaki, nýsköpun og frumherjastarfi þýðir ekki að ég sé á móti uppbyggingu atvinnu, nýtingu náttúruauðlinda eða öðru sem snýr að öflugu atvinnulífi hér á landi.
Það er það eina sem ég bið um, að menn séu ekki smætta okkur niður í störfin okkar. Þegar þú segir að það geti ekki allir verið í því að vera tónlistarmenn, heldurðu virkilega að ég haldi því fram að allir eigi að vera tónlistarmenn? Eða hvað meinarðu? Ég spyr þig af fullum þunga? Ertu virkilega að halda því fram Ingólfur að ég á einhvern hátt telji alla geta unnið við listsköpun af því ég er listamaður? Eða hver er broddurinn í ábendingu þinni? Á sama hátt, heldurðu því fram að allir geti unnið við það að vera varabæjarfulltrúar hér á landi? Eða Háskólakennarar eins og Hannes Hólmsteinn? Hver er meiningin í því að benda beint á atvinnu mína (væntanlega af því hún tengist ekki einhvers konar járnsmíði ellegar öðrum iðnaðarstörfum) og nota hana til að afskrifa ágætlega skrifaða gagnrýni mína á orð þín?
Með von um einlægt og vel ígrundað svar,
Svavar Knútur
Svavar Knútur Kristinsson, 14.10.2008 kl. 01:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.