3.9.2008 | 21:02
Flugvöllur landsbyggðarinnar. Öryggi landsbyggðarinnar.
Á fundi bæjarmálafélags sjálfstæðismanna í Ísafjarðarbæ var eftirfarandi ályktun samþykkt til að minna forystumenn flokksins á landsfundarsamþykkt um samgöngumál frá síðasta landsfundi.
Fundur í bæjarmálafélagi Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ haldinn mánudaginn 1. september 2008 minnir forystumenn Sjálfstæðisflokksins á landsfundarsamþykkt 2007 sem hljóðar svo: ,, Aukin notkun á farþegaflugi ásamt útboði á flugþjónustu til jaðarbyggða hefur skapað tryggari rekstrargrundvöll fyrir innanlandsflug. Landsfundur hvetur til áframhaldandi stuðnings á flugleiðum til jaðarbyggða, þó þannig að hagkvæmni sé gætt í hvívetna. Jafnframt hvetur landsfundur til þess að Reykjavíkurflugvöllur gegni áfram lykilhlutverki sem miðstöð innanlandsflugs. Uppbygging heilbrigðisþjónustu, opinberrar stjórnsýslu og helstu menntastofnana landsins er í Reykjavík og því er eðlilegt að landsmenn allir hafi eins greiðan aðgang að þeirri þjónustu og kostur er. Mikilvægt er að hraða uppbyggingu samgöngumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll en núverandi flugstöð er úrelt og hamlar aðstöðuleysi þar m.a. samkeppni í innanlandsflugi.
Væntanlega er flokksfélögum okkar í borgarstjórn fullkunnugt um þessa samþykkt. Allt tal þeirra um færslu vallarins er því í andstöðu við samþykkt landsfundar.
Áfram í Vatnsmýrinni......
Athugasemdir
Reykvíkingar ættu ekki að hafa neitt um þetta mál að segja - þeir nota ekki flugvöllinn heldur þeir sem búa á landsbyggðinni.
Að skipuleggja íbúabyggð á svæðinu er heimskulegt því eftir því sem ég best veit á ríkissjóður meirihluta landsins og hefur væntanlega ráðstöfunarrétt á landinu á undan Reykjavíkurborg.
Frank Magnús Michelsen, 3.9.2008 kl. 21:29
Ekki gleyma okkur færeyingum og grænlendingum sem lenda á Reykjavíkurflugvelli. Þvílíkur munur að þurfa ekki að fara í gegnum allt batteríið í Keflavík í stað þess að ferðast nánast eins og innanlands í gegnum Reykjavík.
Ég styð að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.
Kveðja frá Færeyjum
Sólveig Birgisdóttir, 4.9.2008 kl. 10:37
Þjóðinni var gefið land undir flugvöllinn á sínum tíma!
Flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni, eða ekkert innanlandsflug, fólk fer þá landleiðina, enda unnið að því að bæta samgöngur og stytta vegalengdir.
Með því að færa flugvöllinn til Keflavíkur, myndi ferðatími Norðfirðingsins lengjast um klukkustund, eins og hann gerði þegar flug til Norðfjarðar lagðist niður
Faktor, 4.9.2008 kl. 14:17
Annað hvort verður flugvöllurinn í Reykjavík eða öll helsta þjónusta verði færð til Keflavíkur, þar á meðal hátæknisjúkrahúsið. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa.
Höfuðborgarbúar verða þá að aka til Keflavíkur til þess að fá þessa þjónustu. Hvað segja þeir við því? Þetta er bara hálftími.
Gló Magnaða, 5.9.2008 kl. 08:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.