24.4.2008 | 08:18
Að koma af fjöllum í Bolungarvík.
Stærsta fréttin undanfarna daga hér fyrir vestan eru slit á meirihlutasamstarfi A og K lista í Bolungarvík. Þetta virðist hafa komið flestum á óvart. En Þó að sumir bæjarfulltrúar segist koma af fjöllum þá eru nú alltaf undanfarar að svona slitum. Ef ég á að vera alveg heiðarlegur þá gaf ég þessu fólki ekki tvö ár, ég hélt að þetta yrði sprungið fyrr.
Hvað mig persónulega varðar þá hef ég undrað mig á framkvæmdargleði fráfarandi meirihluta síðustu tvö árin. Vissulega gleðst ég yfir því að hlutir komist á framkvæmdarstig í gamla bænum mínum, en jafnframt er eg líka viss um að framkvæmdum fylgir kostnaður. það kemur að skuldadögum. Ég tek það fram að ég er ekki vel inní fjármálum eða fjárhagsáætlun Bolungarvíkurbæjar, þó veit ég að staðan er ekkert betri þar en hjá öðrum svipuðum bæjarfélögum á landsbyggðinni.
Hvað varðar Grím Atlason bæjarstjóra þá fannst mér hann koma sterkur inn og falla vel í lið með því fólki sem hefur verið í fararbroddi í baráttu okkar vestfirðinga við ríkið undanfarið. Ég allavega hlustaði þegar hann talaði. En Kompás þátturinn, og árás hans á bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og ásakanir um frændhygli og heimóttarskap í málefnum innheimtustofnunnar var honum til minnkunar.
Sjálfstæðismenn eru nú í lykilstöðu. Það góða fólk sem myndaði minnihlutann verður mun betri kostur til framtíðar litið fyrir Bolvíkinga.
Á því tel ég ekki nokkurn vafa.
Gleðilegt sumar.....
Athugasemdir
Gleðilegt sumar.
Vonandi fyrir Víkara líka.
Gló Magnaða, 24.4.2008 kl. 10:38
"Það góða fólk sem myndaði minnihlutann verður mun betri kostur til framtíðar litið fyrir Bolvíkinga." Sæll Ingólfur það er gott að þú vitir hvað er Bolvíkingum fyrir bestu í framtíðinni ... það sama og var í fortíðinni greinilega ... gleymum því ekki hver hefur verið hér við völd nánast sleitulaust þangað til fyrir tveimur árum. Ég trúi því að það hafi verið gott fyrir bæjarfélagið að fá inn ferkst og nýtt fólk og nýjar hugmyndir því harma ég þetta ástand sem nú er komið upp. Þó ég sé ekki sammála Grími í ýmsum málum sbr innheimtustofnuninni þá hefði ég viljað sjá hann starfa hér áfram ásamt K lista og láta svo fólkið kjósa um það eftir 2 ár hvern það vill sjá í meirihluta hér - það er lýðræði!!
Katrín Dröfn Markúsdóttir, 28.4.2008 kl. 19:42
sammála Katrín!
Harpa Oddbjörnsdóttir, 28.4.2008 kl. 20:42
Sælar stúlkur.
Katrín ég veit svo sem ekkert frekar en þú hvað er best fyrir Bolvíkinga til framtíðar séð. Það er bara mín skoðun að Sjálfstæðismenn séu betri kostur til framtíðar litið heldur en k-listinn.
Það er ekkert erfitt að fá góðar hugmyndir og hrinda þeim í framkvæmd, en það getur verið þrautin þyngri að fjármagna þær ekki síst núna þegar peningamálin eru eins og þau eru. Mér skilst að ekki hafi tekist að fjármagna allar þær framkvæmdir sem byrjað er á eins og t.d. félagsheimilið. Held að það séu ekki öll kurl komin til grafar enn í þessu máli öllu. Eftir tvö ár gæti bara verið um seinan að stíga á bremsuna.
Vil þó minna ykkur á að K-listanum bauðst að starfa með sjálfstæðismönnum strax eftir kosningar en höfðu ekki áhuga þá.
Hvað varðar Grím þá sagði ég hér að ofan hvað mér finnst um hann. Hann hefur staðið sig að mörgu leyti vel en að sumu leyti illa.
Ingólfur H Þorleifsson, 29.4.2008 kl. 12:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.