5.4.2008 | 13:57
Hlustum á Konna Eggerts.
Alveg frá því að ég var krakki heima í Bolungarvík hef ég litið upp til Konna Eggerts. Þessi stóri karl sem kom á bátnum sínum og seldi hrefnukjöt við bryggjuna á sumrin. Eftir að ég varð eldri og kynntist Konna sjálfur hefur virðing mín fyrir honum ekki minkað, þvert á móti. Hann hefur skoðanir á mönnum og málefnum, er kjarnyrtur, og þegar hann talar þá hlusta allflestir.
Á bb.is á fimmtudag er talað við Konna þar sem hann varar vestfirðinga við öfga náttúrusinnum eins og Árna Finnssyni og fleirum. Held að það væri ráðlegt fyrir okkur að hlusta á Konna í þetta skiptið. það er nefnilega eitt að bera virðingu fyrir umhverfi sínu en annað að vera með ranghugmyndir og öfgastefnu eins og margir náttúruverndarsinnar eru.
Það geta allir séð hvernig vargurinn er búinn að fara með það fjölskrúðuga fuglalíf sem var á Hornströndum áður en hann var friðaður með öllu öðru sem er í friðlandinu. Það er varla fugl að sjá þar lengur. Það er eitt af því sem náttúrusinnar hreykja sér nú af, að hafa átt stóran þátt í því að Hornstrandafriðlandið var sett á stofn.
Held að það hefði verið vænlegra að hlusta á þá menn sem hafa áratuga reynslu úr ferðum sínum um svæðið og vita giska vel hvað þeir eru að segja.
Friðland fyrir tófuna....
Athugasemdir
Sæll Ingólfur.
Nú er ég hrædd um að þú þurfir að ræða alvarlega við bæjarstjórann þinn. Ég sá ekki betur en hann væri á stofnfundinum og ... úbbs, haltu þér fast .... hann skráði sig í samtökin svo eftir var tekið. Öfgasamtökin ??
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.4.2008 kl. 09:22
Sæl Ólína.
Ég hef nú lítið um það að segja hvað bæjarstjórinn gerir eða gerir ekki. Hann tekur sínar ákvarðanir, það er annað en hægt er að segja um aðra "fjarstýrða" oddvita.
Halldór og meirihluti bæjarstjórnar hafa sagt allan tíman að þau séu fylgjandi olíustöð ef hún uppfylli öll skilyrði. Það er ekki þar með sagt að þau séu á móti verndun náttúrunnar.
Ég sagði hvergi að þetta væru öfgasamtök, heldur sagði ég að Árni Finnsson væri öfganáttúrusinni og það er hann.
Ingólfur H Þorleifsson, 7.4.2008 kl. 12:21
Er þetta nú ekki svolítill útúrsnúningur?
Konráð varaði við stofnun Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða og talaði í sama orðinu um öfga - eins og þú gerir sjálfur hér í þessum pistli. Þar með ertu að tengja saman hugtökin náttúruvernd og öfgar - rétt eins og Konráð gerði þegar hann varaði við hinum nýju náttúruverndarsamtökum.
Konráð er mætur maður. Ég býst við að þú sért það líka. En þessi málflutningur ykkar er því miður ekki öfgalaus.
Í hinum nýju samtökum er skynsamt og málsmetandi fólk - ég sá þar enga öfgamenn, og furða mig þessvegna á þessu tali í garð þeirra sem vilja halda uppi málefnalegri og faglegri umræðu um náttúruvernd, og gera það af góðum hug.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.4.2008 kl. 14:36
Smá leiðrétting.
Konráð talar raunar ekki um "öfga" heldur notar hann orð eins og "stórþjófnað" og "óhug" - sem eru nú ekki beint jákvæð hugtök heldur.
Öfgatalið átt þú sjálfur Ingólfur - þú verður að eiga um það við þig.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.4.2008 kl. 14:38
Þú getur túlkað þetta eins og þú vilt. Ég efast ekkert um að það ágæta fólk sem stóð að endurvakningu þessa félags er skynsamt og málsmetandi.
Árni Finnsson hefur alltaf athugasemdir þegar á að hrófla við einhverri þúfu einhversstaðar til að koma niður stóriðju. Hann hefur aftur á móti ekki neinar lausnir sem koma að gagni til að bæta atvinnuástand á þeim stöðum sem við á hverju sinni.
Það er nú einu sinni svo að flest allt fólk er þannig gert að það lifir ekki á loftinu. þess vegna þarf stundum að taka ákvarðanir sem fara ekki alltaf saman með skoðunum náttúruverndarsinna, þegar fjölga þarf störfum í samfélaginu.
Þetta skilur allt skynsamt fólk.
Ingólfur H Þorleifsson, 7.4.2008 kl. 15:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.