Einar Oddur Kristjánsson

einaroddur_large

Það hefur myndast stórt skarð í raðir okkar sjálfstæðismanna í Ísafjarðarbæ. Einar Oddur Kristjánsson er fallinn frá langt um aldur fram.

Einar hefur verið einn af forystumönnum flokksins, fyrst á Vestfjörðum og síðan í Norðvesturkjördæmi, í fjóra áratugi, og verið áberandi í starfi flokksins. Fyrst sem formaður Sjálfstæðisfélags Flateyrar, síðan formaður Fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Norður-Ísafjarðarsýslu, formaður kjördæmisráðs í Vestfjarðakjördæmi og loks þingmaður frá 1995 til dauðadags.

Það sést á þessari upptalningu að þeir eru ófáir tímarnir sem farið hafa í þetta starf gegnum árin, og á sama tíma krefjandi starf atvinnurekandans og fjölskylduföðurins. Einar Oddur var maður með fastmótaðar skoðanir sem hann vék ekki frá þó svo að ekki væru allir sammála honum. Hann barðist hart fyrir málefnum landsbyggðarinnar, og hans verður sárt saknað nú þegar í hönd fer barátta vegna skerðingar á þorskkvóta.

Í kosningunum í vor var Einar á fullu um allt kjördæmið og fór á allflesta sveitabæi í kjördæminu. Hann var bjartsýnn á að við héldum okkar mönnum, en minnti okkur jafnframt á að hvergi mætti slaka á, allir lögðust á eitt til að tryggja áfram 3 þingmenn. Á kosninganótt, þegar fyrstu tölur voru lesnar, vantaði töluvert á að Einar væri inni. Við sátum saman og hann brosti út í annað og sagði: "Þetta kemur í næstu tölum, ljúfur, þegar atkvæðin úr sveitunum koma."

Það passaði allt saman. Einar flaug inn í öruggu kjördæmakjörnu sæti. Það hefur komið glögglega í ljós síðustu daga hversu virtur og dáður Einar var hjá þjóðinni, ekki bara hans stuðningsmönnum, heldur fólki úr öllum flokkum og stigum þjóðfélagsins. Fólk leit upp til þessa baráttumanns frá Flateyri sem talaði tæpitungulaust án þess að tala niður til neins. Það verður ekki eins að funda nú þegar Einar er horfinn á braut, traustvekjandi röddin er þögnuð.

Við sem eftir stöndum munum gera okkar besta til að halda uppi merkinu sem Einar hefur haldið á lofti.

Fyrir hönd sjálfstæðismanna í Ísafjarðarbæ sendi ég innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar allrar, megi góður Guð styrkja ykkur í sorginni.

Blessuð sé minning Einars Odds Kristjánssonar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband