6.5.2007 | 21:38
Hverjir studdu ekki hækkun skattleysismarka ?
Talsmenn stjórnarandstöðunnar tala mikið um að skattleysismörk hafi ekki hækkað nóg á þessu kjörtímabili og ásaka ríkisstjórnina um svik við launþega og almenning.
Skattleysismörk geta hækkað á tvo vegu. Annars vegar með því að hækka persónuafslátt og hins vegar með því að lækka skattprósentu. Það er mikilvægt að hafa í huga að hvort tveggja var gert á þessu kjörtímabili, enda hafa skattleysismörk hækkað úr 70 þúsund í um 90 þúsund krónur frá árinu 2003.
Miklar breytingar á skattkerfinu voru lögfestar á þingi árið 2004 og leiddu þær meðal annars til þess að skattprósentan lækkaði um 3 prósentustig. Stjórnarandstaðan í heild sinni sat hjá þegar þetta frumvarp var samþykkt og studdi þar af leiðandi ekki hækkun skattleysismarkanna.
Persónuafsláttur er nú 32.150 krónur á mánuði og skattprósentan 35,7%. Ef prósentulækkanir ríkisstjórnarinnar hefðu ekki gengið í gegn, líkt og stjórnarandstaðan vildi, væri skatthlutfallið 38,7% og skattleysismörkin lægri sem því nemur, eða um 83 þúsund krónur á mánuði, en ekki 90 þúsund eins og nú er. Það er því afar öfugsnúið hjá stjórnarandstöðunni að halda því fram að ríkisstjórnin hafi ekki hækkað skattleysismörk.
Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta ennþá meira.....
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.