27.4.2007 | 12:03
Að tala eftir hentugleika.
Málefni Barna- og unglingageðdeildarinnar (BUGL) hafa verið til umfjöllunar undanfarna daga. Þar er mikil bið eftir þjónustu, sem er miður, en á móti kemur að framlög til deildarinnar hafa verið aukin undanfarin ár og nú þegar eru hafnar framkvæmdir við nýtt húsnæði undir deildina sem mun stórbæta aðstöðuna þar.
Eydís Sveinbjarnardóttir, frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður og sviðstjóri geðdeildar LSH, hafði uppi miklar yfirlýsingar í fréttum Stöðvar 2 á dögunum um að svikin loforð stjórnvalda hefðu leitt til þess að neyðarástand ríkti á deildinni.
Á Deiglunni er rifjað upp að í grein sem Eydís skrifaði í Morgunblaðinu í janúar sl. kvað við nokkuð annan tón enda eflaust ekki jafnáríðandi að mála ástandið í sem dekkstum litum þegar fimm mánuðir eru enn til kosninga. Í greininni sagði m.a.:
Á þessu ári verður loks hafist handa við byggingu göngudeildar fyrir BUGL og þess vænst að sú bygging verði tekin í notkun vorið 2008. Sú viðbót mun væntanlega hafa í för með sér stórbætta starfsaðstöðu auk bættrar aðstöðu fyrir börnin og fjölskyldur þeirra sem leita til göngudeildarinnar. [ ] Fjárveitingar til BUGL hafa aukist á undanförnum árum sem var nauðsynlegt m.a. vegna aukinnar þjónustueftirspurnar.
Þó biðlistar eftir jafnmikilvægri þjónustu séu ekki líðandi er mikilvægt að hafa þetta tvennt í huga; að fjárframlög hafa aukist og að hafist hefur verið handa við byggingu göngudeildar, sem mun bæta aðstöðuna verulega.
Hafa skal það sem sannara reynist....
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.