29.3.2007 | 15:56
Norðvesturkjördæmi
Í gær var fyrsti kosningaþátturinn á Stöð 2. Þar voru mættir oddvitar þeirra framboða sem hafa lagt fram lista fyrir kosningarnar 12 mai. Það hafa sjálfsagt margir undrað sig á hvers vegna enginn fulltrúi var frá Íslandshreyfingunni. Það hlítur að vera vegna þess að þeir hafa enga frambjóðendur og engin stefnumál, og þessvegna ótrúlegt að þeir mælist með fylgi í könnunum. Hvað er fólk að styðja hefur það einhverja hugmynd um það. En víkjum að þættinum. Þar kom margt fróðlegt í ljós t.d. að vinstri grænir hafa ekkert fram að færa í atvinnumálum. Jón Bjarnason hikstaði lengi vel, og á endanum gafst Sigmundur Ernir upp á að bíða eftir svari. Samfylkingin hefur lítið meira fram að færa og eins og í undanförnum kosningum þá er þeirra barátta fólgin í því að tæta niður það sem gert hefur verið í stað þess að hafa einhver svör. Framsóknarmenn vilja Háskóla á Ísafjörð og það stið ég. Það var líka athyglisvert að heyra oddvita Samfylkingarinnar tala fyrir kaffibandalaginu þó svo að varaformaðurinn hans hafi í bréfi sagt að ekki væri hægt að vinna með Frjálslyndum, þannig að lítið eymir eftir af því sulli. Könnun sem birt var í þættinum sýndi að þrátt fyrir allt tal um að Sjálfstæðisflokkurinn muni missa mikið fylgi hér þá er hann aðeins 1.2% frá kjörfylgi í síðustu kosningum, og baráttan er rétt að byrja.
Munum bara að það er könnunin 12 mai sem gildir.........
Athugasemdir
Þrjú pólitísk minni eru sjálfstæðismönnum gjarnan ofar í huga en önnur í aðdraganda kosninga. 1. Haftastefna framsóknarmanna á þeirri tíð þegar mönnum var "úthlutað" uppfyllingu hinna ýmsu þarfa, t.d. þurftu bændur að fá leyfi til að kaupa jeppa. 2. Trúin á frumkvæði einstaklingsins og leyfi hans til að njóta sín við að taka ákvarðanir og framkvæma þær. 3. Pólitískir fjötrar á almenning í Sovét sem bundnir voru í áætlunarbúskap sem stjórnvöld settu reglur um og það miðstýrða hagkerfi sem þetta leiddi af sér. Útkoman á öllum þessum óhugnaði er ekki óljós í hugum sjálfstæðismanna og pólitískri boðun.
Hvernig gengur talsmönnum þessa flokks að sýna kjósendum það líkan sem byggir á "hugmyndafræði" frjálshyggjunnar?. 1. Skömmtunarstefnan sýnist vera helsta baráttumál þeirra sem láta sig hag landsbyggðarinnar varða. Andmælendur virkjana og stóriðju eru hæddir vegna þess að koma ekki út á land og segja fólki hvað það eigi að gera og á hverju það eigi að lifa! Er þetta nokkuð sovéskt?. Að skammta álbræðslur til lífsbjargar fyrir þessi grey á landsbyggðinni. 2. Trúin á frelsi og frumkvæði einstaklingsins er fólgin í því að gefa útvöldum auðlindirnar sem teygja sig upp í fjöruborðið í sjávarbyggðunum umhverfis landið og leyfa þeim síðan að selja þær fyrir okurverð þeim sem með einum hætti eða öðrum hafa náð sér í forgjöf fjármuna eða leigja þær fyrir verð sem gerir leigjandann að þræli líkt og á tíma lénsveldisins. Síðan má segja að í þriðju ályktuninni kristallist þversögnin í öllum þremur. Andstæðingar stórvirkjana í þágu mengandi stóriðju og á smánarverði trúa því að með auknum lærdómi og stækkandi sjóndeildarhring hafi myndast sá mannauður á Íslandi sem hafnar boðun í þessa veru og telji hana niðurlægjandi fyrir land og þjóð. Og þeir flokkar sem nú mynda stjórnarandstöðu trúa því að með því að leysa þessa þjóð úr ánauð þess hugarfars sem þið fordæmið en byggið ókleyfa múr utan um verði henni best borgið. Þetta vitið þið líklega sjálfir en treystið því að kjósendur sjái ekki úlfana í vönduðum sauðargærunum. Ef kennisetningar frjálshyggjunnar fengju farveg í friði fyrir hagsmunavörslu ykkar væri þessi þjóð bjartsýn og geislaði af velsæld.
Þegar ég var barn var mér meðal annars innrætt mikilvægi þess að skammast mín ef ástæða væri til. Jafnframt reynt að skýra fyrir mér hvenær þess væri þörf. Á stjórmálanámskeiðum Sjálfstæðisflokksins þykja önnur námsefni greinilega brýnni. Með alúðar-og baráttukveðju!
Árni Gunnarsson (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 16:50
Sæll Árni
Ég sé að þú ert vel að þér í sögu. Þú getur kanski sagt okkur hverju þessi haftastefna sem viðhöfð var af kommúnistum skilaði? Það er óðs manns æði að ætla að fara að taka upp þessi sósíalísku vinnubröggð sem skiluðu nánast engu í þeim löndum þar sem þau voru viðhöfð. Endirinn þekkir þú sjálfsagt líka þar sem fólkið sameinaðist og steypti þessum mönnum af stóli.
Og að endingu skulið þið ekki blanda saman kommúnistum og náttúruvernd, því að sjálfsagt var hvergi meiri mengun en einmitt í þessum löndum þar sem kommúnistar réðu ríkjum.
Ingólfur H Þorleifsson, 29.3.2007 kl. 18:50
Flest þarf greinilega skýringa við. Mér er fyrirmunað að skilja hvernig þú getur lesið það úr athugasemd minni að ég fylgi haftastefnu. Ég hygg að þó taumlaus frjálshyggja sé slæm þá beri að umgangast höft með varúð. Og hvergi læt ég að því liggja að hagkerfi sósíalismans hafi gengið upp í Sovét. Þvert á móti. En ég ætlast til þess að flestir fái nú séð, ef þeir eru á annað borð þokkalega læsir að ég undrast þá tvíhyggju ykkar sjálfstæðismanna sem felst í því að benda á mistökin í hagstjórn Sovétsins og kosta jafnframt kapps við að ljósrita allt draslið handa Íslendingum! Er það eitthvað annað en sovésk forsjárhyggja að svelta fólk með því að ræna það auðlindunum, gefa þær verðugum vinum og segja fólkinu að nú eigi að bjarga því með atvinnutækifærum sem stjórnað er af ríkisstjórn. Það er nákvæmlega það sem þið eruð að boða og gera. Þið hafið ekki meiri trú á hinu margboðaða "frelsi einstaklingsins" en svo,að þið segið fólkinu á landsbyggðinni sem þið fórnuðuð í þágu einkavinavæðingarinnar hvað það eigi að gera. "Við erum að leysa vanda ykkar og nú eigið þið að vinna í álbræðslum". Var það ekki eitthvað þessu líkt sem ÆÐSTA RÁÐIÐ sagði við íbúana austan tjalds. Andstæðingar ykkar í pólitíkinni segja aftur á móti: "Við viljum gefa fólkinu úti á landi tækifæri til að bjarga sér á eigin forsendum með því að færa því til baka auðlindirnar úti á fjörðunum og leyfa þessu fólki að taka ábyrgð á eigin lífi" í stað þess að hneppa það í fjötra pólitískrar ánauðar í anda Stalíns og Maó formanns. Ég er enginn sérlegur postuli frjálshyggjunnar. Þess vegna ætti ég líklega ekki að reyna að benda ykkur sjálfstæðismönnum á kosti hennar þó þið skiljið þá greinilega ekki sjálfir.
Kommúnismi = náttúruvernd er ekki sýnilegt í minni athugasemd. Ég er umhverfisverndarsinni og styð Frjálslynda flokkinn eins og fjölmargir aðrir sem vilja umgangast lífríki og umhverfi með varúð. Þeir eru í öllum flokkum sem betur fer. Taumlaus markaðs-og auðhyggja án forsjár til komandi kynslóða er hinsvegar pólitík dauðans. Það verður æ fleira af hugsandi fólki ljóst með hverjum degi.
Árni Gunnarsson (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 23:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.