5.6.2010 | 10:40
Leiðari úr sjómannadagsblaði Vesturlands
Ljósm. Bergþór Gunnlaugsson.
Samstaða sjómanna
Hátíðardagur sjómanna er haldinn ár hvert í byrjun júní. Í almanaki Háskóla Íslands er eftirfarandi að finna. Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur í fyrsta skipti hinn 6. júní árið 1938. Sá dagur var mánudagur, annar í hvítasunnu. Næstu ár var fylgt reglu sem á endanum var lögtekin árið 1987, að sjómannadagur skyldi vera fyrsti sunnudagur í júní nema hvítasunnu bæri upp á þann dag. Þá skyldi sjómannadagurinn vera viku síðar.
Þarna náðist með baráttu og samstöðu sjómanna að festa í sessi dag þar sem sjómenn og fjölskyldur þeirra gera sér glaðan dag í hinum ýmsu leikjum og keppni. Sjómenn hafa reyndar í gegnum tíðina náð með samstilltum aðgerðum að koma ýmsum hlutum til betri vegar sér til hagsbóta. Þar má nefna vökulögin sem urðu til þess að sjómenn fengu lögbundinn rétt til að hvílast, fyrst 6 tíma á sólarhring og síðar 12.
Sú ríkisstjórn sem nú situr á valdastóli hefur með aðgerðum sínum og aðgerðarleysi sett störf sjómanna í uppnám. Áform um afnám sjómannaafsláttar og svokölluð fyrningaleið hafa fallið í grýttan jarðveg vægt til orða tekið. Sjómenn vinna erfið og hættuleg störf fjarri ástvinum sínum og nokkrar krónur á dag í þóknun fyrir það eiga að vera sjálfsagðar. Ríkisstjórnin hlustar hins vegar ekki og sker afsláttinn af á sama tíma og t.d. þingmenn og ráðherrar fá háar upphæðir í dagpeninga. Einnig þverskallast ráðamenn við þrátt fyrir ýmis haldbær rök um að fyrning sé ófær leið.
Það væri nær hjá ráðamönnum þjóðarinnar að auka við kvótann svo að sjómenn geti með áræði sínu og dugnaði komið þjóðinni til hjálpar á þeim erfiðu tímum sem nú eru. Sýnt hefur verið fram á að aukning nú muni ekki hafa teljandi áhrif á stofnstærð til lengri tíma litið.
Það verður hins vegar að teljast ólíklegt að ríkisstjórn ráða og dugleysis geri eitthvað slíkt.
Sjómenn þessa lands munu eftir sem áður standa saman og freista þess að sigla sínum fleyjum ávalt í í örugga höfn landi og þjóð til heilla.
Ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegs sjómannadags.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.