24.1.2010 | 12:09
Hvert vill ég stefna.
Í þeim bæ sem ég vil búa í í framtíðinni þurfa að vera þau skilyrði sem fá fólk til að una sátt við sitt. Til að svo verði þarf fólk að geta alið upp börnin sín, komið þeim til mennta og starfa heima í héraði. Við höfum í dag öfluga leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla í öllum byggðakjörnum bæjarins og þannig vill ég sjá það áfram. Menntaskólinn er orðin öflug og rótgróin stofnun sem fyrir löngu hefur sannað tilverurétt sinn. Háskólasetur Vestfjarða er svo frábær viðbót sem er að vaxa og mun vonandi verða öflugur háskóli í framtíðinni.
Fólk þarf að hafa atvinnu til að það geti verið hér áfram. Við eigum hér í Ísafjarðarbæ öflug fyrirtæki sem eru að gera mjög góða hluti. Fái þau að gera það áfram án afskipta ríkisvaldsins í formi skattahækkana, fyrninga á tekjumöguleikum eða annarra tilskipana þá óttast ég ekki framtíð þeirra. Fjölmörg tækifæri eru fyrirsjáanleg á næstu árum í ferðamennsku og þar eru Vestfirðir í sérstöðu. Í okkar fallega landshluta eru margir athyglisverðir hlutir að gerast. Fólk er uppfullt af hugmyndum og krafti, og oft þarf ekki mikla hjálp frá yfirvöldum til að koma góðum hugmyndum í framkvæmd.
Fólk þarf líka að hafa afþreyingu og áhugamál til að una sátt við sitt. Í Ísafjarðarbæ eru fjölmörg tækifæri til íþróttaiðkunar og útivistar. Mjög öflugt barna og unglingastarf er rekið í íþróttafélögum bæjarins. Þar er hægt að velja um hinar ýmsu greinar fyrir börnin okkar til að stunda. Skíðasvæðið er eitt það glæsilegasta í Evrópu og hefur vakið athygli víða. Tveir frábærir golfvellir eru í bænum og fjöldi fólks sem stundar þá skemmtilegu íþrótt. Göngustígur úr Holtahverfi og út í bæ er mikið notaður, og nú er stutt í að göngustígur út í Hnífsdal verði að veruleika. Sundlaugar, sparkvellir og Íþróttahús eru í öllum byggðakjörnum bæjarins. Bæjaryfirvöld hafa komið myndarlega að þessum málaflokki á undanförnum árum, og á að gera svo áfram.
Ísafjarðarbær er sveitarfélag sem á mikla möguleika á næstu árum. Fólk er farið að flytja heim aftur og kemur með aukinn kraft inn á svæðið. Leyfum þessum krafti að taka okkur inn í framtíðina og látum hann skapa okkur ný tækifæri til að vaxa og dafna. Verum óhrædd við að skoða nýjar hugmyndir og fara ótroðnar slóðir. Með opnum huga og jákvæðni getur fólk gert ótrúlega hluti.
Hlutverk bæjarfulltrúa á að vera það að vinna fyrir fólkið í bænum. Við eigum að kappkosta að reka bæinn og stofnanir hans á sem hagkvæmastan hátt, en veita áfram bestu þjónustu til íbúanna. Allir íbúar eiga að vera jafnir óháð búsetu. Stjórnsýslan á að vera opin og gagnsæ. Bæjarfulltrúar og helstu stjórnendur bæjarins eiga að vera aðgengilegir fyrir íbúana til að koma sínum hugmyndum á framfæri.
Komum saman í það verkefni kjósandi góður að gera bæinn okkar að þeim besta á landinu hvað lífsgæði varðar.
Kjósum Ingólf í 2. sætið í prófkjöri sjálfstæðismanna 13 febrúar n.k.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.