21.1.2010 | 13:18
Bærinn okkar allra.
Við sem sækjumst eftir að sitja í næstu bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar þurfum væntanlega að taka á mörgum mis skemmtilegum málum ef við náum kjöri. Þar eru sum mál stærri og mikilvægari en önnur. Ísafjarðarbær hefur á undanförnum árum verið vel rekinn, og þrátt fyrir erfiða rekstrareiningu í þessu dreifða sveitarfélagi þá er árangurinn athyglisverður. Á næstu árum má ekki slaka á í fjármálum sveitarfélagsins, og í einhverjum tilfellum verður að herða ólina.
Eitt verður þó að hafa í huga og það er að bærinn saman stendur af fjórum byggðakjörnum sem allir verða að sitja við sama borð þegar kemur að þjónustu við íbúana. Slík rekstrareining verður aldrei auðveld í rekstri. Ísafjarðarbær hefur rekið skóla, leikskóla, sundlaugar og íþróttahús á öllum stöðum. Sú starfssemi er nauðsynleg í öllum bæjum og allt tal um að skerða þessa þjónustu fellur í grýttan jarðveg. Það er eðlilegt að fólk verji það sem það hefur, en óttinn við hið óþekkta er oftast ástæðan fyrir því að fólk bregst illa við hugmyndum um sparnað. Ef yfirvöld kynna hugmyndir sínar fyrir íbúum áður en þær komast á framkvæmdarstig er líklegra að sátt náist um hluti sem óhjákvæmilegt er að fara í. Þess vegna er íbúalýðræði mikilvægt í framtíðinni. Fólk verður að hafa aðgang að bæjarfulltrúum og lykilstarfsmönnum bæjarins til að koma sínum hugmyndum á framfæri.
Á síðustu árum hefur uppbygging háskólaseturs Vestfjarða orðið til þess að fjöldi fólks hefur getað stundað nám sitt heima. Það er mjög mikilvægt fyrir bæjaryfirvöld að standa þétt við bakið á þeirri starfssemi sem þar er svo hún vaxi og dafni. Mikilvægt er að fá fleiri námsleiðir inn á svæðið svo fólk flytji til Ísafjarðarbæjar til að mennta sig. Það hlýtur að vera baráttumál okkar allra að börnin okkar geti lært og lifað hér fyrir vestan.
Bæjaryfirvöld þurfa sífellt að hafa augun opin fyrir tækifærum til að fá ný fyrirtæki inn á svæðið. En þau verða líka að hlúa að þeim sem eru á svæðinu nú þegar. Berjast verður hart gegn þeim hugmyndum stjórnvalda að kippa fótum undan okkar stærstu fyrirtækjum með því að fyrna tekjumöguleika þeirra, en skilja þau eftir með skuldirnar. Fólk sem ber hag bæjarins okkar fyrir brjósti styður ekki flokka sem hafa slík mál á stefnuskránni.
Ingólfur sækist eftir 2. sætinu í prófkjöri sjálfstæðismanna í Ísafjarðarbæ 13 febrúar n.k.
Ingólf í 2 sæti......
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.